Fjöruhreinsun í Fjörðum með aðstoð þyrlu

Mynd úr safni
Mynd úr safni

Sunnudaginn næstkomandi, 5. júní, Sjómannadaginn 2016, mun þyrluskíða-fyrirtækið Arctic Heli Skiing standa fyrir hreinsunarátaki á fjörum óbyggða Grýtubakkahrepps, Huldulandsins, í samvinnu við sveitarfélagið, fjölda fyrirtækja og félagasamtök á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arctic Heli Skiing.

„Er hér um þjóðþrifaverk að ræða þar sem fjörur svæðisins hafa aldrei verið svo markvisst hreinsaðar fyrr og er þar mikið magn plastúrgangs sem ekki einungis hefur neikvæð sjónræn áhrif á þessa ótrúlegu óspilltu náttúruparadís heldur einnig afar slæm áhrif á allt lífríki svæðisins í heild,“ segir í tilkynningunni. 

Vitað er að plastúrgangur í sjó dregur fjölda lífvera til dauða á ári hverju þ.m.t. fugla sem flækjast í netadræsum og hvali sem innbyrða stærri plaststykki og deyja hægum dauðdaga. Á undanförnum árum hefur komið í ljós að hið hæga niðurbrot plastefna í náttúrunni umbreytir því í svokölluð örplastefni sem eru í dag talin afar heilsuspillandi.

„Þyrlur frá þyrlufyrirtækinu Norðurflugi verða nýttar til að ferja mannskap og stórsekki undir rusl á afskektari og ill-aðgengilegri staði svo sem Kjálkanes og Keflavík en Hvalaskoðunarfyrirtækið Arctic Sea Tours á Dalvík mun flytja meginþorra mannskaps frá Grenivík í Þorgeirsfjörð þaðan sem fólk mun dreifa sér til hreinsunarstarfa m.a yfir í Hvalvatnsfjörð með aðstoð björgunarsveitarinnar Ægis á Grenivík,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Stór hluti þess svæðis sem hreinsa á, er einungis aðgengilegur af sjó eða af gangandi fólki yfir hásumarið eða þegar tíðin er góð. Aðkoma þyrlunnar sem nýtt verður til að hífa allt ruslið til byggða á Grenivík þar sem starfsmenn Gámaþjónustu Norðurlands munu taka á móti því og flokka er afar mikilvæg. Án hennar væri erfitt að standa fyrir slíkri alsherjarhreinsun.

„En þarna verður gleðin einnig við völd og í lok dags verður slegið upp alsherjar grillveislu á Þönglabakka í Þorgeirsfirði þar sem veitingastaðurinn Kontorinn á Grenivík ásamt Kjarnafæði bjóða þreyttum en glöðum strandhreinsitæknum upp á steikur að hætti hússins. Má fastlega gera ráð fyrir að þar verði á boðstólum afurðir Fjárræktarfélags Grýtubakkahrepps bornar fram af heiðursfólkinu í Ferðafélagi Fjörðunga og Karlafélaginu Hallsteini á Grenivík,“ segir í tilkynningunni. /epe
Upplýsingar um nánara skipulag, skráningu fólks í ferðina og tímasetningar verður að finna á www.grenivik.is næstu daga.

Nýjast