Fjórar frumsýningar hjá Leikfélagi Akureyrar í vetur

Leikfélag Akureyrar frumsýnir fjögur leikrit á komandi leikári og verður fyrsta frumsýningin í Rýminu þann 9. október nk. Þá verður leikritið; Lilja, eftir Jón Gunnar Þórðarson frumsýnt en verkið er lauslega byggt á þekktri kvikmynd Lukas Moodyssons, Lilya 4 ever, sem vakti mikla athygli um heim allan fyrir nokkrum árum.  

Lilja er 16 ára stúlka sem býr í gömlu Sovétríkjunum. Móðir hennar yfirgefur hana og flytur til Bandaríkjanna. Lilja býr til sitt eigið heimili með vinkonu sinni Natösju og 14 ára gömlum dreng, Volodja. Á meðan hún sér fyrir heimilinu með vændi dreymir þau öll um betra líf í "Vestrinu". Er draumalífið fegurðin ein, eða er draumurinn helvíti á jörð?

Þetta er saga um börn og fátækt, vændi, ást og svik. Þetta er átakanleg saga um gamaldags þrældóm í nútímasamfélagi. Jón Gunnar vann leikritið meðan hann var við nám í Drama Centre í London. Honum var síðan boðinn styrkur til að vinna verkið áfram í Young Vic leikhúsinu í London. Lilja var frumsýnd í The Contact Theatre í Manchester 2008 í leikstjórn Jóns Gunnars. Sýningin fékk mjög góða gagnrýni og m.a. 5 stjörnur í Manchester Evening News.

Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson

Leikmynd: Jón Gunnar Þórðarson og hópurinn

Búningar: Rannveig Eva Karlsdóttir

Lýsing: Freyr Vilhjálmsson

Hljóðmynd: Gunnar Sigurbjörnsson

Leikarar: Atli Þór Albertsson, Jana María Guðmundsdóttir, María Þórðardóttir, Ólafur Ingi Sigurðsson, Þráinn Karlsson

Frumsýnt 9. október 2009 í Rýminu

LYKILLINN AÐ JÓLUNUM

Hvernig komast jólasveinarnir yfir það að gefa í alla þessa skó á einni nóttu? Mörg þúsund gluggar og aðeins einn sveinn til að laumast inn um þá alla, hvernig er það hægt?

Svarið leynist í læstum skáp á lítilli vinnustofu á skrýtnum stað uppi í fjöllum. Þessa vinnustofu á gamall maður og hann býr yfir leyndarmálinu um jólasveinana og skóna. Hann einn geymir lykilinn að jólunum.

Dag nokkurn hverfur gamli maðurinn á brott, hann er orðinn gamall og hans tími liðinn. Nú eru góð ráð dýr því hann tekur lykilinn sinn með sér. Signý álfastelpa sem hefur aðstoðað gamla manninn fær það erfiða verkefni að finna arftaka hans. Ef hún finnur annan lykil að skápnum finnur hún vonandi þann sem hún leitar að.

Höfundur: Snæbjörn Ragnarsson

Leikstjórn: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

Leikmynd: Dýri Hreiðarsson og Bjarki Árnason

Búningar: Sunna Björk Hreiðarsdóttir

Lýsing: Mika Haaranen

Tónlist: Snæbjörn Ragnarsson

Hljóðmynd/Hljóðstjórn: Gunnar Sigurbjörnsson

Leikarar: Jana María Guðmundsdóttir, María Þórðardóttir, Þráinn Karlsson

Frumsýnt 27. nóvember í Rýminu

39 ÞREP

39 þrep, eða The 39 Steps, er nýlegur gamanleikur eftir Patrick Barlow, sem byggður er á hinni þekktu kvikmynd Alfred Hitchcock, eftir samnefndri skáldsögu John Buchan.

Í þessu ærslafulla leikriti segir frá hinum dekraða glaumgosa Richard Hannay, sem er vanur hinu ljúfa lífi bresku yfirstéttarinnar,en sogast skyndilega inn í æsispennandi atburðarás þar sem við sögu koma morð, svikulir leyniþjónustumenn, brjálaðir prófessorar, Skotar og vitaskuld íðilfagrar konur. Söguhetjan Hannay er meðal fyrstu hefðarmanna-hetjanna í bókmennta- og kvikmyndasögunni, og má segja að hann hafi, ásamt Sherlock Holmes, rutt brautina fyrir seinni tíma hetjur á borð við James Bond. Það er óhætt að segja að leikgerðin sé ekki öll þar sem hún er séð, en hana skrifaði breski háðfuglinn Patrick Barlow.

Í þessum nýstárlega og sprenghlægilega spennu-gamanleik takast fjórir hugrakkir leikarar á við 139 hlutverk, í einhverjum hröðustu, mest spennandi og fyndnustu 100 mínútum sem sést hafa á leiksviði.

39 þrep hlaut hin virtu Olivier verðlaun sem besta gamanleikritið árið 2007 og tvenn Tony verðlaun árið 2008. Leikritið hefur gengið fyrir fullu húsi á West End í meira en þrjú ár.

Höfundur: Patrick Barlow

Þýðandi: Eyvindur Karlsson

Leikstjórn: María Sigurðardóttir

Leikmynd: Finnur Arnar Arnarsson

Búningar: Rannveig Eva Karlsdóttir

Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Hljóðmynd: Gunnar Sigurbjörnsson

Leikarar: Björn Ingi Hilmarsson, Atli Þór Albertsson, Jóhann G. Jóhannsson, Þrúður Vilhjálmsdóttir

Frumsýnt 8. janúar í Samkomuhúsinu

ROCKY HORROR (The Rocky Horror Show)

Rokk og Ról!

Söngleikurinn sem allir hafa beðið eftir!

Í Rocky Horror segir frá tveimur þægum og prúðum unglingum, þeim Brad og Janet sem verða fyrir því óláni að bíllinn þeirra bilar úti á þjóðvegi. Eina húsið í nágrenninu er kastali Dr. Frankenstein. Húsbóndi kastalans er reyndar ekki sjálfur Frankenstein heldur Dr. Frank N Furter sem kemur frá plánetunni Transilvaníu. Hann er á kafi í vísindatilraun, er að búa til hinn fullkomna karlmann; Rocky. Í stað þess að fá hjálp við að gera við bílinn endar hið unga siðsama par innilokað í vægast sagt undarlegu og stórhættulegu ævintýri, umkringd furðulegustu fyrirbærum, sem þjóna hinum dularfulla en rokkaða Frank N Furter.

Rocky Horror er söngleikur sem fólk um allan heim dáir og elskar. Pönkaður rokksöngleikur með frábærri tónlist og litskrúðugum persónum.

Richard O'Brien skrifaði The Rocky Horror Show árið 1973 og verkið var frumsýnt 19. júní sama ár í London. Árið 1975 var svo gerð kvikmynd eftir söngleiknum; The Rocky Horror Picture Show.

Höfundur: Richard O'Brien

Þýðing: Veturliði Guðnason

Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson

Leikmynd: Pétur Gautur Svavarsson

Búningar: Rannveig Eva Karlsdóttir

Tónlistarstjórn: Andrea Gylfadóttir

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Freyr Vilhjálmsson

Hárkollugerð: Kristín Thors

Leikarar: Magnús Jónsson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Jana María Guðmundsdóttir, Bryndís Ásmundsdóttir, Atli Þór Albertsson, Jóhann G. Jóhannsson, Guðmundur Ólafsson, Andrea Gylfadóttir.

Frumsýnt 19. mars 2010 í Samkomuhúsinu

Sýningin Fúlar á móti verður tekin upp aftur í Reykjavík, og nú í Loftkastalanum. Fyrsta sýningin verður 28. ágúst kl. 20.00. Þessi sýning er sérstök styrktarsýning og rennur miðaverð óskipt í söfnunina sem Edda Heiðrún, leikkona stendur fyrir, ásamt fleirum, til styrktar uppbyggingu Grensásdeildarinnar. Edda Heiðrún mun verða heiðursgestur á sýningunni og taka við því fé sem safnast. Fjölmiðlar eru mjög velkomnir og LA býður upp á hressingu í Loftkastalanum fyrir sýningu. Fúlar á móti verða sýndar aftur á Akureyri um Páskana 2010.

Samstarfsverkefni Leikfélags Akureyrar, Nýja Íslands og Borgarleikhússins, Við borgum ekki, við borgum ekki verður sett upp á fjölum Samkomuhússins á Akureyri 18. september. Leikstjóri þessarar sýningar er Þröstur Leó Gunnarsson og leikarar: Ari Matthíasson, Halldór Gylfason, Jóhann G. Jóhannsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Nýjast