Fjölþjóða heimstónlistarsveit með tónleika í Deiglunni

Fimmtudaginn 11. mars kl. 21:00 heldur fjölþjóða heimstónlistarsveitin Narodna Muzika tónleika í Deiglunni á Akureyri í samstarfi við Jazzklúbb Akureyrar. Narodna Muzika var stofnuð árið 2006 af Hauki Gröndal saxófón- og klarínettleikara. Frá upphafi hefur markmið sveitarinnar verið að leika tónlist með rætur frá Balkanskaganum.  

Í hljómsveitinni hafa leikið ýmsir hljóðfæraleikarar frá Tyrklandi, Búlgaríu, Danmörku, Svíþjóð og Íslandi. Í ársbyrjun 2009 kom út fyrsti geisladiskur sveitarinnar en hann var tekinn upp í Plovdiv í Búlgaríu haustið 2008. Á þessum diski naut Haukur liðveislu hins frábæra búlgarska harmóníkuleikara Borislav Zgurovski en hann stýrði upptökum. Á diskinum er að finna eldfjörug þjóðlög frá Búlgaríu, Grikklandi o.fl. Diskurinn fékk afar góðar viðtökur og hefur m.a. verið spilaður í Búlgarska ríkisútvarpinu og segja innfæddir að ekki sé hægt að greina að þarna fari að hluta erlendir hljóðfærleikarar höndum um balkönsku tónlistina.
Með Hauki leika Borislav Zgurovski á harmóníku, Ásgeir Ásgeirsson á tamboura, Þorgrímur Jónsson á bassa og Erik Qvick á slagverk.

Nýjast