Fyrir stundu var skrifað undir skipulagsskrá fyrir Fjölsmiðjuna á Akureyri við hátíðlega athöfn í húsakynnum Rauða krossins á Akureyri. Fjölsmiðja er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum, sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu.
Í Fjölsmiðjunni er ungmennum hjálpað við að finna sér stað í lífinu og byggja sig upp fyrir framtíðina. Samkvæmt hugmyndinni er verklag eða vinnugeta fólksins virkjað svo unga fólkið öðlist reynslu og verði hæfara til að finna sér starfsgrein eða að fara í frekara nám. Sambærileg starfsemi hefur verið til staðar í Kópavogi og þar er fjölsmiðja sem starfað hefur með góðum árangri í 6 ár. Þar veitir Þorbjörn Jensson, fyrrum landsliðsþjálfari og handknattleiksmaður, starfseminni forstöðu og sagði hann við undirskriftina áðan að þetta úrræði hefði sannað sig rækilega fyrir sunnan og að hann efaðist ekki um að það sama myndi gerast hér á Akureyri.Fjölsmiðjunni á Akureyri er ætlað að aðstoða ungt fólk á Eyjafjarðarsvæðinu sem ekki hefur náð að fóta sig á vinnumarkaði við að finna sér nýjan farveg í lífinu. Þessir einstaklingar, sem eru á aldrinum 16-24 ára, eru atvinnulausir vegna reynsluleysis, menntunarskorts, félagslegra og/eða andlegra vandamála. Um 25% allra sem eru á atvinnuleysisskrá á svæðinu tilheyra þeim aldurshópi. Það vekur sérstaka athygli hversu fjölmennur hópur ungs fólks er sem þarf að fá fjárhagsaðstoð frá Akureyrarbæ. Þannig var fjórðungur þeirra sem þurftu fjárhagsaðstoð frá bænum á árinu 2006 yngri en 25 ára eða alls um 88 einstaklingar.
Fjölsmiðjan er vinnusetur og felst starfsemi hennar einkum í framleiðslu vara, faglegri verkþjálfun og ýmiss konar þjónustu. Byggt verður á reynslu Fjölsmiðjunnar í Kópavogi sem starfað hefur frá árinu 2001.
Stofnaðilar að Fjölsmiðjunni á Akureyri eru Rauði krossinn, Akureyrarbær, Vinnumálastofnun, Eining-Iðja og Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri. Stofnfé Fjölsmiðjunnar er 31 milljón króna og þar af leggur Akureyrarbær fram 10 milljónir eða tæpan þriðjung. Það er talsvert meira en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt til fjölsmiðjunnar fyrir sunnan.
Bundnar eru miklar vonir við starfsemi Fjölsmiðjunnar á Akureyri og að fjölmörgu ungu fólki gefist þar tækifæri til að skapa sér nýja möguleika í starfi eða námi. Fram kom hjá Helenu Karlsdóttur, sem gerði grein fyrir verkefninu í dag fyrir hönd undirbúningshópsins, að hugmyndin væri að hrinda starfseminni af stað strax í haust, en ráðinn verður forstöðumaður og 1-2 aðrir starfsmenn.