Fjölskylduráðgjöf á Heilsugæslustöð
Fjölskylduráðgjöf var komið á fót innan Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri (HAK) árið 1988 í samræmi við ákvæði í lögum um heilbrigðisþjónustu. Sérmenntaður fjölskylduráðgjafi og sálfræðingur annast þjónustuna. Einstaklingum og fjölskyldum er veitt meðferð og ráðgjöf. Í forvarnarskyni hefur verið veitt fræðsla og námskeið haldin. Samstarf og samráð eru við fagfólk bæði innan og utan heilsugæslunnar. Árið 2013 áttu 760 íbúar á starfssvæði HAK samskipti við fjölskylduráðgjöfina.
Um 450 konur á starfssvæði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri fæða börn á ári hverju. Á meðgöngutímanum fylgjast læknar og ljósmæður vel með heilsufari og líðan kvennanna og ófæddra barna þeirra, samkvæmt þrautreyndu skipulagi. Barnsfeðrum og eldri systkinum er líka gaumur gefinn meðan beðið er eftir nýja barninu.
Fjölskylduráðgjöf HAK lagði frá upphafi áherslu á að ráðgjöfin nýttist í mæðra- og ungbarnavernd heilsugæslunnar. Í september 1992 hófst formlega á heilsugæslustöðinni þróunarverkefnið Nýja barnið aukin fjölskylduvernd og bætt tengsl. Helstu frumkvöðlar verkefnisins meðal fagfólks stöðvarinnar voru, að öðrum ólöstuðum, Karólína Stefánsdóttir fjölskylduráðgjafi og Hjálmar Freysteinsson heilsugæslulæknir. Þróað var kerfisbundið verklag og samstarf lækna, ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga og fjölskylduráðgjafar um fjölskylduvernd, sem haldist hefur síðan. Markmiðið með þessu verklagi er fyrst og fremst að greina snemma óhagstæð skilyrði og vandkvæði hjá verðandi foreldrum og ráða á þeim bót, í þeim tilgangi að þroskaskilyrði og aðbúð hinna ófæddu barna verði þeim sem hagstæðust. Fjölskylduráðgjafarteymi sem samanstóð af fjölskylduráðgjafa, framkvæmdastjóra, hjúkrunarforstjóra, yfirlækni og ritara veitti verkefninu öflugan stuðning frá upphafi. Verkefnið Nýja barnið hlaut meðmæli landlæknis og fyrir milligöngu Heilbrigðisráðuneytisins hlaut það sérstaka viðurkenningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar árið 1998.
Á síðasta ári kynntu sálfræðinemar við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri niðurstöður rannsóknar sinnar á viðhorfum skjólstæðinga Fjölskylduráðgjafar HAK til þjónustunnar sem þar er í boði. Þátttakendur voru 250 einstaklingar sem sótt höfðu þjónustuna árin 2010 og 2011. Af þeim kváðust 70% vera mjög eða frekar ánægðir með þá þjónustu og ráðgjöf sem þeir fengu og rúmlega 78% höfðu fundið fyrir jákvæðum breytingum í kjölfarið. Helst var talið ábótavant að biðtími eftir þjónustunni var of langur.
Sæunn Kjartansdóttir hjúkrunarfræðingur og sálgreinir segir í bók sinni Árin sem enginn man Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna að engin einstök forvörn sé jafn öflug og stuðningur við foreldra ungra barna og að góð tenging fólks við tilfinningar sínar sé öflugasta forvörn við vanrækslu og ofbeldi sem til er. Greinarhöfundur er ekki í vafa um að þetta er rétt og telur að verklag Nýja barnsins við Heilsugæslustöðina á Akureyri hafi margþætt forvarnargildi í þessu efni.
Framangreint frumkvöðlastarf fagfólks á HAK hefur verið þróað í takt við nýja þekkingu í hálfan þriðja áratug. Þegar frumkvöðlarnir eru nú að kveðja vettvanginn er það mikilvægt fyrir almannahag að við keflinu taki nýtt fagfólk sem byggi á reynslunni af þessu sérstaka verklagi. Fjölskylduráðgjöf stöðvarinnar sendi velferðarráðherra í byrjun árs 2013 áskorun um að efla starfsemi hennar til að unnt yrði að mæta þörfum íbúa á starfssvæði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri fyrir ráðgjöf og meðferð í heilsugæslunni á sviði fjölskyldu- og geðverndar. Forstjóri HAK studdi erindið.
Greinarhöfundur telur að óhjákvæmilega verði að fjölga stöðuheimildum fjölskylduráðgjafa og sálfræðinga í Fjölskylduráðgjöf HAK úr einni og hálfri í fjórar til að geta mætt lágmarksþörfum íbúanna fyrir þjónustu hennar.
Sigmundur Sigfússon, geðlæknir, annar tveggja handleiðenda Nýja barnsins fyrstu árin og skipar 13. sæti á lista VG á Akureyri.