Fjölnota klefi í Sundlaug Akureyrar

Endurbótum við Sundlaug Akureyrar lýkur í haust. Mynd/Axel Þórhallsson.
Endurbótum við Sundlaug Akureyrar lýkur í haust. Mynd/Axel Þórhallsson.

Við endurbætur á Sundlaug Akureyrar sem stefnt er á að klárist með haustinu verður komið upp fjölnota klefa sem hægt er að nota fyrir fatlaða og einstaklinga með sérþarfir. „Þar verður útbúin aðstaða sem gerir vonandi sem flestum ef ekki öllum kleift að sækja stærstu sundlaug Akureyrar. Þetta er stór og rúmgóður klefi,“ segir Ingibjörg Isaksen formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs bæjarins.

Hingað til hefur verið skortur á aðstöðu fyrir fatlaða í klefum sundlaugarinnar. Í frétt Vikudags fyrir þremur árum sagði forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar að það vantaði tilfinnanlega klefa þar sem hinn fatlaði og aðstoðarmaður eru af gagnstæðu kyni og einnig sérútbúna aðstöðu fyrir þá sem glíma við mikla fötlun. Fékk blaðið ábendingar um að starfsfólk sundlaugarinnar deildi búningsaðstöðu með fötluðum og dæmi um að fatlaðir einstaklingar hafi þurft að bíða eftir því að komast að. En nú virðist bót vera í máli.

„Bærinn leggur mikla áherslu á að aðgengismál séu í lagi í sveitarfélaginu. Þegar ráðist er í nýframkvæmdir eða stórar viðhaldsframkvæmdir er leitað eftir ábendingum hjá ferlinefnd bæjarins en nefndin fer yfir teikningar og kemur með ábendingar varðandi aðgengismál,“ segir Ingibjörg.

„Sundlaugasvæðið hefur verið sett í sömu hæð, þ.e. tröppur verið teknar út þar sem það hefur verið mögulegt til að auka aðgengi allra. Hugað var sérstaklega að aðgengi fyrir alla við framkvæmd á nýjum potti og leiklaug t.d. hæð potta og góðu aðgengi fyrir þá sem eru í hjólastól.“


Athugasemdir

Nýjast