Fjölmenni á Bleika kvöldinu í Hofi
Konur á öllu aldri fjölmenntu í Menningarhúsið Hof í gærkvöld en þar var efnt til konukvölds í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands. Tilgangurinn með Bleika kvöldinu var þríþættur; að eiga góða og skemmtilega kvöldstund, hvetja til árvekni gegn krabbameini hjá konum og að styrkja átak Krabbameinsfélagsins, Bleiku slaufuna.
Fjölmargir listamenn stigu á svið, Dóróthea Jónsdóttir sagði frá reynslu sinni af baráttu við brjóstakrabbamein og félagar frá Krabbameinsfélagi Akureyrar voru á staðnum og kynntu starfsemi sína. Á meðal listamanna sem komu fram voru; Lay Low, Kristjana Arngrímsdóttir, Alt saman, Eyþór Ingi Jónsson, Kammerkórinn Ísold, hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Ívar Helgason, Hvanndalsbræður, Eyrún Unnarsdóttir, Lára Sóley Jóhannsdóttir, Óskar Pétursson, dansarar frá Point dansstúdíói og Hundur í óskilum. Miðaverð rann óskipt til Bleiku slaufunnar en aðgöngumiði gilti einnig sem happdrættismiði og þá var haldið uppboð á hönnunarvörum. Fjölmörg fyrirtæki styrktu verkefnið.