Fjöldi umsókna svipaður og í fyrra

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur á Húsavík segist vona að Velferðarsjóður verði einhv…
Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur á Húsavík segist vona að Velferðarsjóður verði einhvern tíma óþarfur. Mynd/epe

Velferðarsjóður Þingeyinga opnaði fyrir umsóknir um jólaaðstoð í nóvember og er umsóknarfrestur til 6. desember nk. Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sóknarprestur á Húsavík er í úthlutunarnefnd. Hún segir að útlit sé fyrir svipaðan fjölda umsókna og í fyrra þegar rúmlega 40 umsóknir bárust. „Mér sýnist það miðað við árferðið í haust. Það verður ekki undir 40 umsóknum,“ segir hún en allir sem búa í Þingeyjarsýslu, norður og suður geta sótt um. „Maður er alltaf að vona að sjóðurinn verði óþarfur en þetta haustið hefur ekki gefið okkur tilefni til þess, því miður.“

Velferðarsjóður úthlutar Netto kortum til umsækjenda og svo munu Kiwanismenn á Húsavík úthluta matarpökkum sem innihalda kjöt frá Norðlenska. „Við sjáum til þess að fólk fái í jólasteikina í ár,“ segir Sólveig Halla og bætir við að Fiskbúð Húsavíkur og Fiskeldið Haukamýri hafi stutt vel við málefnið í gegnum árin og gefið fólki fisk.

Umsóknarfrestur er til 6. desember því Kiwanismenn þurfa smá tíma til að undirbúa þetta og síðan er úthlutunin 16. desember í Kirkjubæ á Húsavík,“ útskýrir Sólveig Halla.

Þá segir hún að best sé að sækja um á netfanginu rkihusavik@simnet.is. Einnig sé hægt að hafa samband við prestana á svæðinu til að leggja söfnuninni lið.

„Það sem velferðarsjóður þyggur og tekur á móti er allur stuðningur í formi fjárframlaga af því Kiwanismenn sjá um matinn. Fyrirtæki og einstaklingar hér á svæðinu hafa verið mjög örlát við að styrkja sjóðinn í gegn um árin. Sumir eru að greiða fast framlag á mánuði og svo koma reglulega veglegir styrkir,“ segir Sólveig Halla og villl koma á framfæri kæru þakklæti frá sjóðnum til þeirra sem hafa lagt honum lið. „Framlag ykkar er ómetanlegt,“ segir hún að lokum.

Hægt er að styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga með því að leggja inn á eftirfarandi reikningsnúmer: 1110-05-402610

Kennitala: 600410-0670.


Nýjast