Fjöldi námstækifæra hjá SÍMEY í vetur
SÍMEY býður upp á fjöldamörg námskeið sem eru bæði starfstengd og tengd áhugamálum hvers og eins. Margvís er fyrirtæki sem sérhæfir sig í íslenskukennslu fyrir útlendinga og nú á haustdögum rann sú starfsemi inn í SÍMEY og því eykst fjölbreytni námskeiðahalds SÍMEY til muna. Hjá SÍMEY er hægt að ljúka sambærilegu námi og stúdentsprófi með því að ljúka Háskólabrú sem kennd er í samstarfi við Keili. Auk Háskólabrúar eru kenndar fjöldi annarra námsleiða s.s. Félagsliðabrú, Grunnmenntaskóli, Menntastoðir, Skólabrú og Skrifstofuskóli o.fl.
Erla Björg segir að sívaxandi þáttur í starfi SÍMEY sé þátttaka í raunfærnimati sem metur áralanga starfsreynslu til styttingar á námi. Þátttakendur í námsleiðum hjá SÍMEY telja á annað hundrað og er það fyrir utan þau fyrirtæki sem leita eftir þjónustu SÍMEY.
"Eitt af hlutverkum SÍMEY er að sinna þörfum atvinnulífsins varðandi sí- og endurmenntun og styðst SÍMEY við aðferðafræði sem heitir Markviss en það er kerfi til að skipuleggja fræðslu, þjálfun og annað sem snýr að uppbyggingu starfsmanna, mæla og meta árangur eftir því sem mögulegt er. Auk þess að sinna þessum fjölmörgu verkefnum býður SÍMEY upp á náms- og starfráðgjöf fyrir einstaklinga, þeim að kostnaðarlausu. SÍMEY mætir þörfum og því eru þeir margir sem geta átt erindi við okkur," segir Erla Björg.