Hún segir að mikið hafi verið um ferðalanga á Akureyri í vetur og hún heyri ekki annað en menn séu almennt ánægðir með dvölina. Margir þeirra hafi hætt við utanlandsferðir, skíðaferðir eða borgarferðir í vetur en skellt sér þess í stað norður í land. "Þetta er nýr valkostur og margir eru að endurupplifa svæðið og endurnýja viðhorf sín til þess," segir Vilborg. "Ég heyri ekki annað en fólki virðist almennt líða vel hér og hafi átt góða daga þannig að þetta mun að mínu mati hafa þau áhrif að fólk kemur aftur síðar eða geri Akureyrarferð að vetri að föstum lið." Þá nefnir hún að veðurfar líkt og stundum hefur verið, snjókoma í logni kalli Austurríkismenn , "snjódollara," þegar þannig viðri megi eiga von á að skíðafólk streymi á svæðið og það verði örugglega uppi á teningnum hér næstu daga.
Vilborg segir að þó svo að ferðmenn séu mikivægir og hafi verið góð viðbót í vetur megi ekki gleyma heima- og nærsveitarmönnum, þeir séu í raun það dýrmætasta fyrir hverja verslun. Hvað ferðamenn varðar sé það meira tilfallandi inn í hvaða verslun hver og einn ratar og ekki á vísan að róa í þeim efnum. Verslunarferðir meðal ferðamanna séu nokkurs konar afþreying, " búðirnar eru eins konar söfn, sem eru opin hvað lengst og það er frítt inn," segir hún.
Sigurður Guðmundsson í versluninni Viking segir veturinn hafa verið ágætan, "ég hef aldrei kvartað," segir hann og bætir við að hinn mikli straumur ferðamanna norður í land hafi komið sér vel fyrir verslun og veitingasala í bænum síðastliðna mánuði. Hann segir að einkum og sér í lagi hafi innlendir ferðalangar verið á ferðinni, en lítið sjáist af útlendingum. "Þeir komast ekki lengra en til Reykjavíkur, fara ekki neitt út á land þannig að þeir sjást ekki hér. En innlendir ferðamenn hafa verið hér í stórum stíl," segir hann.
Hvað komandi sumar varðar gerir hann ráð fyrir að sama verði uppi á teningunum, innlendir ferðalangar verði mikið á ferðinni, en hinir erlendu síður. "Þeim á eitthvað eftir að fækka, en ég er bjartsýnn samt sem áður og held að þetta verði bara ágætt í heildina."