Fjöldi fólks skemmti sér vel á barnamenningarhátíð í Hofi

Menningarhúsið Hof iðaði af lífi í dag, þegar þar efnt til barnamenningarhátíðar. Fjöldi fólks á öllum aldri kom í heimsókn og skemmti sér vel. Tilgangur hátíðarinnar var að efla samstarf milli aðila sem koma að menningu barna á Norðurlandi, njóta menningar með börnum og láta um leið gott af sér leiða. Að þessu sinni rennur allur ágóði hátíðarinnar til Barnadeildar FSA.

Heimir Ingimarsson og Hjalti Jónsson hituðu upp fyrir hátíðina í Hömrum, minni sal Hofs og stjórnuðu söng og leikjum fyrir börn á leikskólaaldri. Þá kíkti Skotta úr Stundinni okkar í heimsókn og voru börnin virkilega spennt fyrir henni. Einnig stýrði Rodrigo Lopes kennari við Tónlistarskólann á Akureyri trommurhring fyrir gesti og gangandi, áður en hátíðin sjálf hófst í Hamraborg, aðalsal Hofs. Þar komu fram börn sem leggja stund á ólíkar listgreinar ásamt listamönnum á borð við Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur og Davíð Sigurgeirsson. Kynnar hátíðarinnar voru umsjónarmaður Stundarinnar okkar, Margrét Sverrissdóttir og leikarinn Oddur Bjarni Þorkelsson.

Að hátíðinni komu fjölmargir aðilar sem vinna að menningarstarfi barna á Eyjafjarðarsvæðinu: Tónlistarskólinn á Akureyri, Tónlistarskóli Dalvíkur, Point dansstúdíó, Tónræktin, Barnakórar Akureyrarkirkju, Kór Hrafnagilsskóla, HBI Vocalist Söngskóli, Tónlistarvinnuskóli Hofs ásamt fjölmörgum grunnskólanemendum. Verkefnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði.

Nýjast