Fjölbreyttar og vel heppnaðar listasmiðjur

14 krakkar á öllum aldri sóttu hjólabrettanámskeið á Háskólaparkinu undir leiðsögn Steinars Fjeldste…
14 krakkar á öllum aldri sóttu hjólabrettanámskeið á Háskólaparkinu undir leiðsögn Steinars Fjeldsteds. Kennd voru helstu undirstöðuatriði hjólabrettisins, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Mynd/akureyri.is

Hannyrðapönk, hljóðlist og kakósmakk var meðal þess sem þátttakendur í listasmiðjum sumarsins fengu að kynnast. Boðið var upp á fjölbreyttar listasmiðjur í tengslum við Listasumar á Akureyri og er óhætt að segja að þær hafi slegið í gegn en í sumum tilvikum komust færri að en vildu. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar og þar er hægt að sjá fleiri myndir.

Listasumar var haldið á vegum Akureyrarbæjar í júlí með ýmsum ævintýralegum uppákomum og upplifunum, meðal annars listasmiðjum fyrir börn og fullorðna.

Hér eru nokkur dæmi:

Hannyrðapönkarinn Sigrún Bragadóttir hélt námskeiðið hannyrðapönk í almenningsrými þar sem þátttakendur fengu að kynnast því hvernig hannyrðagraff getur verið jákvætt hreyfiafl fyrir nærsamfélagið.

Aðrir sköpuðu hljóðverk og lærðu um forrit, upptökuferli og eftirvinnslu á tilraunakenndri hljóðlistarsmiðju undir leiðsögn Jóns Hauks Unnarssonar tónlistarmanns.

Rusl í nýju ljósi 

Endurvinnslusmiðjur fyrir börn og fjölskyldur í Rósenborg undir stjórn Heiðdísar Þóru Snorradóttur voru afar vel sóttar. Markmiðið var að sjá umbúðir og annað „rusl" í nýju ljósi. Fjölbreyttur efniviður var í boði, allt frá korktöppum til skyrdósa og pappakassa.

Tónlistasmiðja og sirkus

Tónlistarmenn framtíðarinnar gátu að sjálfsögðu fundið eitthvað við sitt hæfi. Þriggja daga tónlistasmiðja undir leiðsögn Jóhannesar Ágústs Sigurjónssonar gaf börnum á öllum aldri tækifæri til að læra textagerð, upptökur og eftirvinnslu.

Sirkuslistahópurinn Hringleikur heimsótti Akureyri og í samstarfi við Listasumar hélt hópurinn tveggja daga sirkusnámskeið í íþróttahúsi Glerárskóla. Sirkuslistafólkið Eyrún Ævarsdóttir og Jóakim Kvaran kenndu 20 börnum á öllum aldri leyndardóma sirkuslistarinnar. Mikil ánægja var með námskeiðið og snemma fullbókað og lærðu krakkarnir allt frá jafnvægisæfingum til jöggls og loftfimleika.

Flamencotónlist og morgunjóga 

Flamencogítaleikarinn Reynir Hauksson hélt tveggja daga námskeið þar sem þátttakendum var boðið að skyggnast inn í heim flamencotónlistarinnar. Farið var yfir helstu áherslur flamenco í gítarleik og dansi.

Orkugefandi morgunjóga í náttúrunni var í boði í Lystigarðinum alla miðvikudagsmorgna á Listasumri. Rakel Eyfjörð Tryggvadóttir sá um þessa vinsælu viðburði sem voru afar skemmtilegir, enda lék veðrið við þátttakendur.


Athugasemdir

Nýjast