Fjölbreyttar og spennandi sýningar opnaðar á laugardag
Hlynur Hallsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir setja nú upp fjórðu sameiginlegu sýninguna sína eftir stutt hlé í GalleríBOXi, sal Myndlistarfélagsins. Bæði hafa þau hlotið ýmsar viðurkenningar og styrki fyrir verk sín. Sýningin stendur til 11. september og er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-17.
Margrét Rut Eddudóttir opnar sýningu í Deiglunni á laugardag kl. 15.00. Opið verður alla daga nema mánudaga til 11. september. Margrét Rut er myndlistarmaður og hefur unnið í ýmsum miðlum. Eftir að hafa tekið sér langt frí frá því að mála, heldur hún nú sýningu sem ber titilinn "4". Aðal uppistaða sýningarinnar eru málverk og teikningar.
Listakonurnar Björg Eiríksdóttir og Hanna Hlíf Bjarnadóttir opna sýningu í Ketilhúsinu, kl. 14.00 á laugardag. Sýningin er á vegum Myndlistarfélagsins og stendur til 11. september. Björg sýnir lágvær og innhverf verk en verk Hönnu Hlífar eru óður til íslenskra hannyrða.
Á sama tíma opnar Guðbjörg Ringsted málverkasýningu í Mjólkurbúðinni. Á sýningunni sýnir Guðbjörg málverk þar sem blóm flögra um myndflötinn og minna á gömul íslensk útsaumsmynstur. Sýningin stendur aðeins þessa einu helgi og er opið laugardag og sunnudag kl.14-17 og einnig á laugardagskvöld frá kl.20.
Á Listasafninu á Akureyri verður opnuð yfirlitssýning á verkum Gústavs Geirs Bollasonar kl. 15.00. Gústav hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér heima og erlendis og haldið tíu einkasýningar. Þetta er í fyrsta sinn sem yfirlitssýning á verkum Gústavs er haldinn og gefst því gott tækifæri til að fá innsýn í feril þessa einstaka listamanns.
Þá opnar Joris Rademaker sýninguna; Á milli tilvistar og tilveru, í Populus Tremula kl. 14.00 á laugardag. Sýninguna tileinkar hann minningu Sigurðar Jónssonar. Klukkan þrjú á opnunardag syngur Kristján Pétur Sigurðsson tvö lög eftir Cornelis Vreeswijk. Sýningin er opin laugardag frá kl. 14.00-22.00 og sunnudag kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi. Á Akureyrarvöku um helgina hefst nýtt starfsár í Populus tremula.