Fjölbreytt dagskrá í tilefni 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar

Krakkar á Krógabóli afhentu afmæliskort sem þau höfðu gert í leikskólanum.
Krakkar á Krógabóli afhentu afmæliskort sem þau höfðu gert í leikskólanum.

Á þessu ári eru 150 ár liðin frá því Akureyri hlaut kaupstaðarréttindi. Tímamótunum verður fagnað allt árið með sérstakri afmælisviku í kringum sjálfan afmælisdaginn, 29. ágúst. Dagskrá afmælisvikunnar hefst föstudaginn 24. ágúst og lýkur með veglegri afmælisveislu helgina 1.-2. september. Dagskráin var kynnt á blaðamannafundi í Minjasafninu á Akureyri fyrr í dag en safnið fagnar 50 ára afmæli á árinu. Þess verður minnst á ýmsan hátt, m.a. með sérstökum sýningum í fjórum sveitarfélögum í næsta nágrenni Akureyrar.

Við undirbúning afmælisárs Akureyrarkaupstaðar hefur verið lögð sérstök áhersla á þátttöku sem flestra bæjarbúa og að allir leggi sitt af mörkum við að gera afmælið sem eftirminnilegast. Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að taka virkan þátt í hátíðarhöldunum og láta ekki sitt eftir liggja, hvort sem er við að byggja upp hátíðlega stemningu eða fegrun bæjarins. Í tilefni afmælisins verður meðal annars gefið út sérstakt afmælislag sem Bjarni Hafþór Helgason hefur samið, stefnt verður að frumsýningu leikritsins Borgarinnan eftir Sögu Jónsdóttur, tvær nýjar bækur verða gefnar út, annars vegar um Lystigarðinn á Akureyri og hins vegar um sérkenni og kennileiti í bænum, og bæjarlistamaðurinn Eyþór Ingi Jónsson stendur fyrir kórverka–tónleikum í Menningarhúsinu Hofi. Minjagripir verða framleiddir og má þar nefna Monopol–spil með götum bæjarins, púsluspil og ísskápssegla en seglunum verður dreift inn á öll heimili bæjarins í þessari viku. Af öðrum viðburðum má nefna vetrarhátíðina Éljagang í febrúar, uppskeruhátíð skólanna í maí, danska daga í Innbænum í júlí og skáldatíma í nóvember.

Þess má loks geta að öllum er boðið að senda Akureyri heimatilbúin afmæliskort með góðri kveðju í tilefni tímamótanna. Kortin skal senda til Amtsbókasafnsins, Brekkugötu 17, 600 Akureyri, og verður efnt til sýningar á þeim undir lok ársins. Í afmælisnefnd bæjarins sitja Tryggvi Þór Gunnarsson, formaður, Helena Þ. Karlsdóttir og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir. Starfsmenn nefndarinnar eru Hulda Sif Hermannsdóttir, Pétur Bolli Jóhannesson og Sigríður Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri afmælisársins. Nánari dagskrá hvers mánaðar verður kynnt á heimasíðum bæjarins, www.akureyri.is og www.visitakureyri.is.

 

Nýjast