Fjölbreytt dagskrá í Hofi á öðru starfsári menningarhússins

Menningarhúsið Hof hefur annað starfsár sitt í dag, fimmtudaginn 11. ágúst, þegar að miðasalan opnar eftir sumarfrí og vetrardagskráin verður kynnt. Rekstur hússins fyrsta starfsárið hefur gengið vel og er óhætt að segja að starfsemin hafi sett mark sitt á bæjarlífið á Akureyri. Áfram verða fjölbreyttir viðburðir á dagskrá Hofs í öllum listgreinum.  

Nýjung í starfsemi Hofs þennan veturinn eru áskriftarkort þar sem fólk getur sett saman sína eigin dagskrá. Þrjár tegundir af áskriftarkortum eru í boði - Klassíska kortið, Brot af því besta og Dúndur - og velja gestir það kort sem fellur best að þeirra smekk. Sjá nánar á menningarhus.is.

Fjölbreytt dagskrá

Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Hofi í vetur og á meðal viðburða má nefna að hljómsveitin Skálmöld hefur Evrópureisu sína með tónleikum í Hofi í september og Friðrik Ómar heldur uppá þrítugsafmæli sitt þar í byrjun október með glæsilegum tónleikum. Leikhópurinn Vesturport leggur land undir fót og sýnir Húsmóðurina í Hofi og norðlenski kórinn Hymnodia setur upp barokkóperuna Dido og Aeneas í apríl. Lay Low heldur útgáfutónleika í tilefni útkomu þriðju breiðskífu sinnar í haust og Fjölskylduferð á skódanum er yfirskrift tónleika til heiðurs Ingimari Eydal. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og Íslenski dansflokkurinn heimsækja einnig Hof í vetur. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem meðal annars verður frumfluttur nýr píanókonsert eftir Jón Ásgeirsson. Bubbi Morthens tekur forskot á Þorláksmessu og býður Norðlendingum á Þorláksmessutónleika rétt fyrir þorláksmessu og Ari Eldjárn kitlar hláturtaugarnar í febrúar. Á meðal nýjunga í vetur eru kvikmyndasýningar í stóra sal hússins þar sem Bíó Paradís mun í samstarfi við KvikYndi (Kvikmyndaklúbb  Akureyrar) sýna sígildar kvikmyndir á breiðtjaldi í bestu mögulegu hljómgæðum og færa þannig andrúmsloft kvikmyndanna í Hof.

Útvarpsþátturinn Gestir út um allt sem vann hylli hlustenda um allt land sem og áhorfenda í sal síðasta vetur hefur göngu sína á ný í lok ágúst þegar að Margrét Blöndal og Felix Bergsson taka á móti góðum gestum. Aðalgestur í þessum fyrsta þætti er Eyjólfur Kristjánsson og leynigesturinn á eftir að koma skemmtilega á óvart. Á barnamorgnum í vetur verður tekið vel á móti yngstu kynslóðinni með ævintýralegri dagskrá og barnamenningarhátíðin Börn fyrir börn verður áfram á sínum stað.

Myndlistarfélagið á Akureyri opnar samsýningu í lok ágúst og á meðal annara sýninga í vetur er afmælissýning Jónas Viðars, yfirlitssýning Óla G. og samsýning systranna Maríu, Þórdísar og Margrétar Jónsdætra. Sjá nánar á menningarhus.is

Nýjast