Fjölbreytt dagskrá í Hofi á öðru starfsári menningarhússins
Nýjung í starfsemi Hofs þennan veturinn eru áskriftarkort þar sem fólk getur sett saman sína eigin dagskrá. Þrjár tegundir af áskriftarkortum eru í boði - Klassíska kortið, Brot af því besta og Dúndur - og velja gestir það kort sem fellur best að þeirra smekk. Sjá nánar á menningarhus.is.
Fjölbreytt dagskrá
Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Hofi í vetur og á meðal viðburða má nefna að hljómsveitin Skálmöld hefur Evrópureisu sína með tónleikum í Hofi í september og Friðrik Ómar heldur uppá þrítugsafmæli sitt þar í byrjun október með glæsilegum tónleikum. Leikhópurinn Vesturport leggur land undir fót og sýnir Húsmóðurina í Hofi og norðlenski kórinn Hymnodia setur upp barokkóperuna Dido og Aeneas í apríl. Lay Low heldur útgáfutónleika í tilefni útkomu þriðju breiðskífu sinnar í haust og Fjölskylduferð á skódanum er yfirskrift tónleika til heiðurs Ingimari Eydal. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og Íslenski dansflokkurinn heimsækja einnig Hof í vetur. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem meðal annars verður frumfluttur nýr píanókonsert eftir Jón Ásgeirsson. Bubbi Morthens tekur forskot á Þorláksmessu og býður Norðlendingum á Þorláksmessutónleika rétt fyrir þorláksmessu og Ari Eldjárn kitlar hláturtaugarnar í febrúar. Á meðal nýjunga í vetur eru kvikmyndasýningar í stóra sal hússins þar sem Bíó Paradís mun í samstarfi við KvikYndi (Kvikmyndaklúbb Akureyrar) sýna sígildar kvikmyndir á breiðtjaldi í bestu mögulegu hljómgæðum og færa þannig andrúmsloft kvikmyndanna í Hof.
Útvarpsþátturinn Gestir út um allt sem vann hylli hlustenda um allt land sem og áhorfenda í sal síðasta vetur hefur göngu sína á ný í lok ágúst þegar að Margrét Blöndal og Felix Bergsson taka á móti góðum gestum. Aðalgestur í þessum fyrsta þætti er Eyjólfur Kristjánsson og leynigesturinn á eftir að koma skemmtilega á óvart. Á barnamorgnum í vetur verður tekið vel á móti yngstu kynslóðinni með ævintýralegri dagskrá og barnamenningarhátíðin Börn fyrir börn verður áfram á sínum stað.
Myndlistarfélagið á Akureyri opnar samsýningu í lok ágúst og á meðal annara sýninga í vetur er afmælissýning Jónas Viðars, yfirlitssýning Óla G. og samsýning systranna Maríu, Þórdísar og Margrétar Jónsdætra. Sjá nánar á menningarhus.is