Fjölbreytt dagskrá á hátíðinni Éljagangi á Akureyri

Andrea Hjálmsdóttir og Tryggvi Gunnarsson taka sprett á snjóþrúgum kringum Frosta við setninguna á R…
Andrea Hjálmsdóttir og Tryggvi Gunnarsson taka sprett á snjóþrúgum kringum Frosta við setninguna á Ráðhústorgi í dag.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri setti vetrar- og útivistarhátíðina Éljagang formlega á Ráðhústorgi seinni partinn í dag. Þar upplýsti hann m.a. að snjókarlinn stóri og myndarlegi sem prýðir torgið hafi fengið nafnið Frosti en það tengist stuðningi Kælismiðjunnar Frosts við gerð hans. Við sama tækifæri sýndu strákar og stelpur listir sínar á snjóbrettum og fulltrúar úr meiri- og minnihluta í bæjarstjórn Akureyrar, ásamt tveimur leikmönnum úr kvenna- og karlaíshokkíliðum Skautafélags Akureyrar reyndu með sér í keppnisgrein þar sem hraði, leikni og samhæfni skiptu aðalmáli. Um var að ræða nokkurs konar íshokkíkeppni en það eina sem minnti í raun á þá íþrótt voru kylfurnar og treyjur keppenda. Að síðustu reyndu fulltrúar meiri- og minnihluta með sér í spretthlaupi á snjóþrúgum í kringum snjókarlinn Frosta. Dagskrá Éljagangs er bæði fjölbreytt og skemmtileg en hátíðin stendur fram á sunnudag. Alla dagskrána er að finna á síðunni www.eljagangur.is og einnig er hátíðin á Facebook undir eljagangur. Myndirnar frá setningunni í dag tala sínu máli.

Nýjast