Fjölbreytt dagskrá á Fiskideginum mikla á Dalvík

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í ellefta sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis. Það má segja að setning Fiskidagsins mikla sé með Vináttukeðjunni og hún verður á sínum stað fyrir neðan Dalvíkurkirkju kl. 18:00, föstudaginn 5. ágúst.  

Dagskráin er glæsileg að vanda. Meðal aðila sem fram koma á Vináttukeðjunni eru Eurovisionfarar Dalvíkurbyggðar Friðrik Ómar og Matti Matt, Tríóið Sykur og rjómi, Karlakór Dalvíkur og leikskólabörn í Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna flytur Svanhildur Hólm Valsdóttir, 5.000 friðardúfublöðrum verður sleppt, flugeldum skotið og knúskortinu dreift. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina. Fiskisúpukvöldið sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, er haldið í sjöunda sinn í ár og samtals hafa ríflega 120.000 gestir ritað nöfn sín í gestabækur á súpukvöldi. Súpukvöldið hefst kl. 20:15, föstudaginn 5. ágúst og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni.

Á sjálfum Fiskideginum mikla, laugardeginum 6. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00, opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst. Matseðillinn er margrétta og meðal nýjunga er kókoskarrý ýsa í raspi frá frá Grími kokki úr Eyjum Hann mun einnig koma með Grímsplokkfiskinn sem sló í gegn á Fiskideginum mikla 2008. Stærsti súpupottur landsins er eflaust 1200 lítra pottur sem að Bjarni í Nings, fjölskylda og vinir munu fylla af gómsætri fiskisúpu með austurlenskum blæ. Skemmtidagskráin er mjög fjölbreytt að vanda. Dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn og til viðbótar fjöldi fjölskylduvænna atriða vítt og breitt um hátíðarsvæðið. Arfleifð frá Djúpavogi verður með áhugaverða tískusýningu á heimsmælikvarða, þar sem sýnd verða föt og fylgihlutir úr sjávarleðri. Sýningin verður bæði á á hátíðarsviðinu og um allt svæðið. Á Fiskideginum mikla í ár leggjum við enn meiri áherslu á fjölskylduhátíðina og að fjölskyldan komi saman og skemmti sér. Við munum bjóða upp á enn meira úrval en áður af skemmtiefni fyrir börnin. Brúðubíllinn kemur að vanda og verður með 3 sýningar yfir daginn í boði KEA. Við fáum Latabæ, Sollu Stirðu og íþróttaálfinn í boði Samkaups-Úrvals. Þá kemur leikhópurinn Lotta með Mjallhvíti og dvergana sjö. Í boði Samherja gestgjafa Fiskidagsins mikla og eins af aðalstyrktaraðilunum koma Björgvin Franz og félagar úr Stundinni okkar. Fiskasýningin verður á sínum stað með afar áhugaverðum íbúum hafsins, segir í fréttatilkynningu.

Fréttir af öðrum viðburðum í tengslum við Fiskidaginn mikla 2011


Fjölskylduganga fram að Kofa - Dísa í Dalakofanum
- Nýr tími

Fiskidagurinn mikli mun líkt og undanfarin ár koma upp sérstakri gestabók í kofanum sem stendur í Böggvisstaðadal. Þeir sem skrifa í gestabókina lenda í potti og á aðalsviði Fiskidagsins mikla verða veglegir vinningar dregnir út. Kofinn stendur á tóftarbrotum smalakofa sem þar stóð til skamms tíma. Sagnir herma að þar hafi Davíð Stefánsson frá Fagraskógi ort kvæðið um Dísu í dalakofanum. Lagt verður upp frá Dalvíkurkirkju kl. 16:00 miðvikudaginn 3. ágúst og munu Brynjólfur Sveinsson, Sveinn Brynjólfsson, Þorsteinn Skaftason og Vilhelm Hallgrímsson leiða hópinn. Gangan tekur rúmar þrjár klukkustundir, fram og til baka og er öllum fær.

Dalvíkurbyggð eins og stór listasýning

Allir íbúar í Dalvíkurbyggð fá sendan heim útsagaðan fisk og staur til að festa fiskinn á. Hvert heimili skreytir sinn fisk eftir sínu höfði. Miðvikudaginn fyrir Fiskidaginn mikla er fiskurinn settur út að lóðarmörkum þar sem gestir og gangandi geta séð hann. Jón Arnar garðyrkjustjóri ásamt sínu fólku hjá Dalvíkurbyggð og vinnuskólanum skreyta bæinn og innkeyrslur í bæinn listilega vel. Að auki eru íbúarnir í Dalvíkurbyggð listamenn miklir og skreyta hús og garða á skemmtilegan máta. Segja má að þeir sem að taki sér göngutúr um bæinn séu á stórri og eftirminnilegri listasýningu.

Flugeldasýning í boði Samherja

Laugardagskvöldið 6. ágúst kl. 23:30 á hafnargarðinum verður flugeldasýning í boði Samherja. Samherji er öflugt fyrirtæki í Dalvíkurbyggð og er einn af gestgjöfum og aðalstyrktaraðilum Fiskidagsins mikla. Við viljum benda gestum á að fara varlega í brekkunni.

Landsleikur í knattspyrnu: Ísland - England á Fiskidaginn mikla

Norðurlandamót drengja undir 17 ára fer fram á norðurlandi í Fiskidagsvikunni. England tekur þátt í þessu móti sem gestaþjóð.  Tveir leikir fara fram á Dalvíkurvelli föstudaginn 5. ágúst. Noregur - Færeyjar kl 13:00 og  Ísland - England kl. 15:00. Frítt verður á báða leikina.

Nágrannaslagur

Ekki síðri og áhugaverðari leikur verður í íslandsmótinu  2 deild. Fimmtudaginn 4. ágúst kl. 19:00, þá keppa heimamenn í Dalvík/Reyni við KF frá Fjallabyggð. KF er sameinað lið Ólafsfirðinga og Siglfirðinga, ókeypis verður á völlinn.

Fiskileður í Fiskidagsvikunni - Gestastofa Sútarans á Dalvík

Gestastofa sútarans frá Sauðárkróki er staðsett í einu sútunarverksmiðjunni í Evrópu sem framleiðir leður úr fiskroði. Með gestastofunni er ferðamönnum og almenningi opnaður aðgangur að sútunarverksmiðju og afurðum hennar á óvenjulegan hátt. Fiskleður hefur heillað hönnuði heimsþekktra vörumerkja eins og Prada, Dior og Nike. Nú hefur verið sett upp Gestastofa í salnum sunnan við Klemmuna í Hafnarbraut. Ekki missa af þessu. Stofan veðrur opnuð þriðjudaginn 2. ágúst kl. 18:00. Alla dagana verður opið frá kl. 11:00 til 21:00. Sunnudaginn 7. ágúst er opið til kl. 15:00.

Götunöfnin breytast

Fiskidagsvikuna breytast götunöfnin á Dalvík og er þá fyrri hluta nafnanna er breytt í fiskanafn. Nú hafa fulltrúar gatnanna í bænum dregið sér ný nöfn. Sem dæmi um hvernig nöfnin breytast, verður Sunnubraut Steinbítsbraut og Bárugata Grásleppugata.

Sýningar í tengslum við Fiskidaginn mikla

  • Ljósmyndasýning á Ráðhúslóðinni: Gamlar og nýjar myndir
  • Friðland fuglanna: Öðruvísi og áhugaverð sýning að Húsabakka
  • Ljósmyndasýning Jóns Baldvinssonar í Bergi, m.a frá Síldarárunum
  • Verðlaunasýning Björgvins Björgvinssonar skíðamanns í Ráðhúsinu
  • Gestastofa Sútarans: Sýning í salnum sunnan við Klemmuna Hafnarbraut
  • Arfleifð frá Djúpavogi sýnir muni úr sjávarleðri í salnum sunnan við Klemmuna
  • Leikhópurinn Lotta sýnir Mjallhvíti og dvergana sjö í kirkjubrekkunni
  • Brúðubíllinn með 3 sýningar á Fiskidaginn mikla á hafnarsvæðinu
  • Stærsta fiskasýningu í Evrópu með yfir 200 tegundur af ferskum fiski
  • Flugeldasýning á hafnargarðinum að kvöldi Fiskidagsins mikla í boði Samherja
  • Sýning Björgunarsveitarinnar og Slysavarnardeildar kvenna á munum sveitanna
  • Svo má segja að stærsta sýningin sé skrautsýning bæjarbúa á fiskskiltum og fleiru

Tónleikar í tengslum við Fiskidaginn mikla

  • Klassíska tónlistarhátíðin Bergmál í Bergi
  • Tríóið Sykur og rjómi í Bergi
  • Tangó fyrir lífið í Bergi með Kristjönu Arngrímsdóttur
  • Jógvan og Friðrik Ómar með Vinalög í Dalvíkurkirkju
  • Matti Matt í Húsasmiðju/Samkaupa Úrvals grillinu
  • Óþekkt með órafmagnaða tónleika í Dalvíkurkirkju
  • Lifandi tónlist á barnum Við höfnina
  • Á annað hundrað tónlistarmenn á aðalsviði Fiskidagsins mikla

Annað

  • Styrktarskemmtun fyrir ungan mann í íþróttamiðstöðinni
  • Norðurlandamót U 17 ára í knattspyrnu
  • Landsleikur U17 liða í knattspyrnu: Ísland - England
  • Nágrannaslagur í knattspyrnu Dalvík/Reynir - KF í 2. deild
  • Markaðir
  • Æðruleysismessa í Dalvíkurkirkju - Krossbandið spilar

Hugleiðingar frá skipuleggjendum

Viljum bregðast við áður en að þetta verður að vandamáli

Síðastliðið haust hélt Fiskidagurinn mikli íbúafund. Allir fundargestir voru sammála um að dagskráin á vegum Fiskidagsins mikla gengi mjög vel. Hið sama má segja um umferð og umgengni yfir daginn og fram yfir miðnætti. Allflestir höfðu þó áhyggjur af hægt og sígandi breyttu hegðunarmynstri á nóttunni og aukningu þeirra sem mæta á hátíðir til þess eins að taka þátt í og búa til næturlíf sem er ekki í anda hátíðanna. Það er sammerkt með þeim sem tilheyra þessum hópi að þeir taka ekki nokkurn þátt í þeirri dagskrá sem er yfir daginn og er skipulögð fyrir alla fjölskylduna-saman. Ákveðið var að áður en að þetta yrði að vandamáli að setja saman forvarnarnefnd sem hefur hist á fundum í vetur. Nefndin hefur m.a. átt samvinnu með þjónustu og veitingaaðilum um styttri opnunartíma á nóttunni. Hún hefur sent foreldrum á Eyjafjarðarsvæðinu bréf þar sem þeir eru m.a. hvattir til að virða útivistarreglur og senda ekki  börn undir 18 ára aldri ein á útihátíðir. Við hvetjum fjölskyldur að koma SAMAN og skemmta sér saman. Unnið hefur verið að aukinni gæslu á tjaldstæðunum, í samvinnu með SAMAN hópnum og tekin verður á leigu aðstaða í miðbænum þar sem lögregla og gæslufólk getur komið með ólögráða unglinga þar sem hringt verður í foreldra.


Gestir og bæjarbúar njóta fjölskylduvænnar dagskrár Fiskidagsins mikla yfir daginn og fram undir miðnætti. Njóta síðan samvista við gesti og gangandi heimavið eða á tjaldstæðunum en aðrir vilja kíkja í miðbæinn og hitta vini og gamla kunningja og fara síðan á skikkanæegum tíma tíma að sofa. Íbúar Dalvíkurbyggðar sem að allflestir koma að hátíðinni með einum eða öðrum hætti og aðrir velunnarar Fiskidagsins mikla vilja vernda hátíðina, þannig að við getum áfram boðið öllum landsmönnum til okkar, að njóta matar og skemmtunar. Þess má geta að það eru yfir 300 sjálfboðaliðar sem leggja hátíðinni lið sér og öðrum til ánægju og yndisauka.

Nýjast