Fjölbreytnin í fyrirrúmi á Listasumri á Akureyri
Listasumar á Akureyri heldur áfram og framundan eru virkilega áhugaverðir og fjölbreyttir viðburðir.
Allar gáttir er viðburðaröð sem Valgerður H. Bjarnadóttir leiðir í Davíðshúsi. Davíð er skáld ástarinnar og elskar heitt og einlæglega, oft blítt og barnslega, en stundum er ástin full dulúðar, djúp, tryllt og jafnvel tortímandi. Valgerður fær til sín góða gesti í sumar og í dag fimmtudaginn 4. ágúst komu þær Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Helga Kvam tónlistarkona fram til að leika og syngja nokkur lög.
Á laugardaginn kl 14 mun Jóhanna Friðfinnsdóttir opna sýningu með leirskúlptúrum og sem ber yfirskriftina Fuglar og form. Jóhanna dvelur oft í Hrísey þar sem náttúran er henni hugleikin, ekki síst rjúpan sem vappar um frjáls og friðuð en hún varð Jóhönnu innblástur í leirlistinni. Byggði hún upp form rjúpunnar í mismunandi stærðum og þróaði út frá því mismunandi skúlptúra. Sýningin er í Sal Myndlistafélagsins í Listagilinu og stendur yfir 6. - 14. ágúst.
Einnig á laugardaginn mun Anja Teske opna sýningu í Mjólkurbúðinni kl 14. Anja er þýskur ljósmyndari og dvelur í Gestavinnustofu Gilfélagsins. Þema sýningarinnar er „Perspectives“. Sýningin stendur til 14. ágúst.
Listaverkefnið RÓT 2016 hefst á laugardaginn og er það nú haldið í þriðja sinn. Sjö hópar listamanna hittast á 15 daga tímabili og skapa verk sem eru upphugsuð að morgni og framkvæmd og fullunnin á einum degi. Þetta skapar mikil orku og líf í Listagilinu og verður lögð áhersla á að vera úti og vera áberandi, íbúum og ferðamönnum til ánægju. Fyrir þátttakendur er verkefnið bæði spennandi og krefjandi, þeir vinna undir mikilli tímapressu sem reynir á samstarfshæfni og skapandi hugsun. Hægt er að skyggnast inn í ferli verkefnisins frá kl 13 – 17 þessa umræddu daga.
Á mánudaginn hefst svo þriðja listasmiðja Listasumars en þá munu þær Jónborg Sigurðardóttir og Brynhildur Kristinsdóttir leiða börn í gegnum heim endurvinnslulista. Listasumar stendur fyrir fernum Listasmiðjum í sumar og síðar í mánuðinum verður raftónlistarsmiðja en meira um hana síðar.