Á annað hundrað manns hafa greinst með svínaflensuna hér á landi og þar af eru fjórir á Norðurlandi. Þorvaldur Ingvarsson, forstöðumaður lækninga hjá Sjúkrahúsi Akureyrar, segir að þeim sem fái einkenni svínaflensunnar, sé bent á að leita til Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri þar sem FSA vilji forðast að fá flensuna til sín.
Hann segir menn vissulega í viðbragðsstöðu ef flensan ágerist og verður að faraldri. „Ef það verður faraldur þá opnum við sérstaka móttöku í tengslum við sjúkrahúsið ásamt Heilsugæslunni. Að öllum líkindum yrði móttakan staðsett þar sem gamla Sel var.” Þorvaldur segir að mjög mikið þurfi að gerast til þess að lokað verði almennum stofnunum hér á Akureyri, t.d. skólum. „Til að svo verði þarf fyrst að sýna sig að þessi inflúensa sé skæðari en önnur inflúensa og það er ekkert sem bendir til þess eins og staðan er í dag.”
Þorvaldur ítrekar að svínaflensan sé hefðbundin inflúensa enn sem komið er. „Eins og þetta hefur þróast er þetta bara venjuleg inflúensa og það er ágætt að fólk átti sig á því að oft á tíðum þegar fólk fær kvefpestir og einhvern vægan hita, þá talar það um það sem inflúensu, þó að það sé ekki eiginleg flensa. Þú gleymir því ekkert ef þú færð inflúensu, þá ertu með yfir 40 stiga hita og beinverki og þess háttar. Það er mjög mikilvægt að fólk haldi bara ró sinni og fari ekki út í neitt „panikk” eins og staðan er í dag,” segir Þorvaldur.