Fjármálaráðherra telur að auka þurfi eigið fé Vaðlaheiðarganga hf.

Skýrsla IFS hefur enn ekki verið birt opinberlega.
Skýrsla IFS hefur enn ekki verið birt opinberlega.

Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra, segir að auka þurfi eigið fé félagsins sem annast á gerð Vaðlaheiðarganga. Hún kynnti skýrslu IFS greiningar um gerð ganganna á fundi ríkisstjórnar í morgun. Oddný segir að samkvæmt skýrslunni séu forsendur fyrir stofnkostnaði og rekstri ganganna innan raunhæfra marka, en ýmislegt þurfi að ganga upp, til að endurfjármögnun á láni frá ríkissjóði verði tryggð.

Þannig megi vextir ekki verða miklu hærri en þeir sem ríkið lánar á. Þetta kemur fram á vef RÚV. Ef hægt væri að auka eigið fé Vaðlaheiðarganga upp í 10 prósent af heildarláni ríkisins til framkvæmdanna, fengi félagið hagstæðari lán til endurfjármögnunar og væri hæfara til að bregðast við ef lánskjör myndu versna. Skýrsla IFS hefur enn ekki verið birt opinberlega.
Þegar Oddný var spurð hversu skynsamlegt hún teldi verkefnið vera sagði hún að forsendur Alþingis í fjárlögum þessa árs fyrir framkvæmdunum væru að verkefnið standi undir sér. Það væri mikilvægt út af atvinnuástandi og til að styrkja innviði samfélagsins á Norðurlandi eystra, en það yrði að standa undir sér. Gert er ráð fyrir að fjárlaganefnd fái nú skýrslu IFS greiningar til umfjöllunar, sem og skýrslu Pálma Kristinssonar verkfræðings sem telur að rekstur Vaðlaheiðarganga muni ekki standa undir kostnaði við gerð þeirra. Oddný sagðist ekki hafa kynnt sér þá skýrslu, en það stæði til, segir ennfremur á vef RÚV.

 

Nýjast