Fjárfestum í börnunum

Á síðastliðnum átta árum hefur hreyfingarleysi barna og unglinga á Íslandi aukist um 50%. Með það í huga erum við að horfa fram á gífurlegt vandamál, aukningu á lífstílstengdum sjúkdómum og töluverðan kostnað fyrir ríki og sveitarfélög.  Hreyfingaleysi og breytt matarræði eru helstu áhættuþættir hjarta og æðasjúkdóma og annarra langvinnra sjúkdóma.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint langvinna sjúkdóma sem helstu ógn heimsbyggðarinnar við félagslega og efnahagslega framþróun á 21. öld.

Langvinnir sjúkdómar hindra framfarir, hagvöxt og heilbrigði. Fari fram sem horfir munu Vesturlandabúar búa við vaxandi dánartíðni vegna langvinnra sjúkdóma á næstu tveimur til þremur áratugum.

Úr vörn í sókn

Í skýrslu á vegum Unicef (2011) segir að af íslenskum grunnskólabörnum séu 21% yfir kjörþyngd og hefur sú tala staðið nokkurn veginn í stað frá árinu 2004.  Hlutfall barna í þessum hóp sem glíma við offituvandamál hefur hins vegar hækkkað úr 4,7% í 5,5% sem þýðir að alvarlegustu tilfellunum hefur fjölgað töluvert.

Mikilvægt er að snúa þessari  þróun við svo vandinn fylgi börnunum okkar ekki fram á fullorðinsár.  Þetta er erfitt verkefni en ekki óyfirstíganlegt.  Við þurfum að sýna samstöðu  og  skapa samfélag þar sem heilbrigðir lífshættir og mataræði eru í forgrunni.    

Grunnur að forvörnum gegn offitu og ofþyngd eru að mati Landlæknisembættisins að auka hreyfingu skólabarna, huga að mataræði og tómstundum þeirra.

Í skýrslu faghóps forsætisráðuneytisins (2006) er fullyrt að skólarnir gegni lykilhlutverki í þeim umbótum sem nefndin telur óhjákvæmilegt að ráðast þurfi í.  Hugarfarsbreytinga sé þörf hjá stjórnvöldum, allt frá Alþingi til skólastjórnenda, í þá veru að vægi skólaíþrótta og hreyfingar almennt verði stóraukið.

Nú hafa stjórnvöld tekið á skarið og samþykkt að setja á fót ráðherranefnd um lýðheilsumál.  Jafnframt sem ákveðið hefur verið að setja á fót ráðgefandi nefnd - lýðheilsunefnd, undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.  Lýðheilsunefnd mun vinna drög að heildstærði stefnumótun og aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að efla og bæta lýðheilsu almennings á öllum aldursskeiðum.

 Þetta málefni snertir fjölmörg svið eins og heilbrigðismál, félagsmál, menntamál, umhverfismál, skipulagsmál og fjármál.

Sýnum gott fordæmi

Hvað getum við gert? Jú, byrjað strax á því að efla forvarnir hér á Akureyri og gera þær sýnilegri.  Forvarnir beinast að samfélaginu öllu, hópum eða einstaklingum. Eflum sálfræðiþjónustu inn til grunnskólanna, aukum hlutfall íþróttakennslu í skólum undir handleiðslu íþróttafræðinga, hugum að því hvort möguleiki sé á að auka styrk til íþróttaiðkunar líkt og gert er í Grindavík. Hlutfall barna sem æfir íþróttir þar er hátt auk þess sem dregið hefur úr brottfalli til muna eftir breyttri nálgun á niðurgreiðslur til íþróttaiðkunar.  Hvetjum bæjarbúa til að sýna börnum okkar gott fordæmi með heilsusamlegu líferni.  Regluleg hreyfing er ekki einungis okkur til heilsubóta og forvörn fyrir hinum ýmsu sjúkdómum heldur getum við haft þau áhrif að börnin okkar tileinki sér slíkt hið sama.

Góðar aðstæður á Akureyri

Við búum svo vel að hér á Akureyri er fjöldinn allur af tækifærum til þess að stunda heilbrigða lífshætti, höfum fjöldan allan af íþróttamannvirkjum m.a. sundlaugar, íþróttahús, sparkvelli, skautahöll, frábæra skíðaaðstöðu og svo má ekki mega gleyma því fjölbreytta og góða íþróttastarfi sem hér fer fram.

Flestir eru sammála um að fyrirbyggjandi aðgerðir verði æ ríkari þáttur í starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á næstu árum og áratugum, enda séu það bæði áhrifaríkustu og ódýrustu aðgerðirnar þegar til lengri tíma er litið.

Með þessum aðgerðum og meiru til getum við dregið úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen.

Ingibjörg er forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar og býður sig fram í annað sæti á framboðslista Framsóknarflokksins á Akureyri

Nýjast