Fjallabræður og gestir með tónleika í Hofi

Fjallabræður stíga svið í Hofi á morgun ásamt gestum.
Fjallabræður stíga svið í Hofi á morgun ásamt gestum.

Fjallabræður og gestir halda tónleika í Hofi á morgun, laugardagskvöldið 21. janúar kl. 20.00. Sérstakir gestir á tónleikunum verða Sverrir Bergmann og Jónas Sig úr Ritvélum Framtíðarinnar. Kórinn, sem er þó ekki kór í sinni einföldustu mynd, var óformlega stofnaður á haustmánuðum árið 2006 þegar Halldór Gunnar Pálsson, kórstjóri heimtaði að karlakór myndi syngja í afmælinu hans. Síðan þá hafa margir bæst við í kórinn og eru menn með smekk fyrir félagskap hvers annars sérstaklega velkomir.

Hljómsveit Fjallabræðra skipa þau Óskar Þormarsson og Orri Guðmundsson á trommur, Helgi Egilsson á bassa, kórstjóri og á gítar er Halldór Gunnar Pálsson og síðast en ekki síst fallegasti Fjallabróðirinn og Akureyramærin, Unnur Birna (Bassa) Björnsdóttir á fiðlu og söng. Kórfélagar eru flestir að vestan en þó er kjarninn frá Flateyri. Í kórnum eru líka nokkrir Reykvíkingar sem allir eiga það sameiginlegt að þekkja fjöllin fyrir vestan með nafni og/eða hafa drukkið sjálfa sig undir borðið á þorrablóti á Vestfjörðum.

Nýjast