Fiskverkafólk í Eyjafirði áhyggjufullt

 

Fiskvinnslufólk í Eyjafirði og Fjallabyggð hefur sent alþingismönnum undirskriftalista þar sem áhyggjum er lýst af áhrifum fyrirhugaðra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu.  Alls skrifuðu 241 manns undir bréf sem fór til þingmanna kjördæmisins í gær. Bréfið er svo hljóðandi:

      “Við undirrituð, starfsmenn í fiskvinnslu í Eyjafirði, mótmælum þeim ásetningi stjórnvalda að flytja störfin okkar til einhverra annarra með tilflutningi aflaheimilda frá einum stað til annars. Þannig er vegið að fjárhagslegri afkomu  hundruða fjölskyldna á Eyjafjarðarsvæðinu.Í þeim lagafrumvörpum  um stjórn fiskveiða sem nú eru til umfjöllunar er fjallað ítarlega um fiskveiðar og hvernig þeim skuli háttað. Í engu er tekið tillit til þeirra sem starfa við fiskvinnslu í landi, enda kemur orðið fiskvinnsla aldrei fyrir í þessum lagatextum. Með því er áratuga reynslu okkar og  þekkingu í fiskvinnslu enginn sómi sýndur. Fiskvinnslan verður færð aftur um áratugi  með tilheyrandi verðmætatapi fyrir þjóðarbúið allt.”

Nýjast