Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í næstu viku verður fjallað um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og einnig um frumvarp til laga um veiðigjöld. Á Akureyri er rekið eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, Samherji hf., og það stærsta þegar tekið er tillit til umsvifa félagsins erlendis. Hér er því um að ræða mikið hagsmunamál fyrir eigendur og starfsfólk Samherja og samfélagið í heild. Frumvörpin voru til umræðu á fundi bæjarráðs í morgun, þar sem samþykkt var að vísa þeim til frekari umræðu í bæjarstjórn. Einnig verður rætt um línuleið Blöndulínu 3 á fundi bæjarstjórnar en á fundi bæjarráðs í morgun greindi Sigurður Guðmundsson frá mikilvægi þess að bæjarstjórn geri fyrirvara við fyrirliggjandi línuleið varðandi útlit.