Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, hefur ákveðið að flytja til Akureyrar með stofnuninni á næsta ári. Hann hefur dregið til baka umsókn sína um starf forstjóra Samgöngustofu. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Eins og fram kom í frétt Vikudags í síðustu viku var Eyþór að íhuga alvarlega að flytjast búferlum norður. Eyþór er ekki alls ókunnur Akureyri þar sem hann bjó í bænum á árununum 2001-2003.
Ég lærði sjávarútvegsfræði í Háskólanum á Akureyri og líkaði vel lífið fyrir norðan, sagði Eyþór í samtali við Vikudag. Hann segist jafnframt ætla að ræða við Eirík Björn Björgvinsson bæjarstjóra á Akureyri á næstu dögum um ýmislegt sem snýr að flutning Fiskistofu.