Fiskey gjaldþrota
Fiskey, félag sem stóð fyrir lúðueldi á Hjalteyri og Dalvík var úrskurðað gjaldþrota á föstudag, en þá var ljóst að ekki tækist að safna nægu nýju hlutafé í félagið, sem stóð höllum fæti. Það hefur átt við fjárhagsvanda að stríða sökum framleiðslubrests undanfarin misseri. Þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir hefur hefur ekki tekist að finna út orskir hans.
Allt lausafé félagsins var upp urið og Íslandsbanki, viðskiptabanki félagsins hafði lýst því yfir að ekki yrði lánað meira til þess. Á hluthafafundi sem haldin var í byrjun síðastu viku var staðan kynnt, reynt var að afla nýs hlutafjár, en ljóst þótti að reksturinn stefndi í þrot tækist ekki að fjámagna hann með nýju hlutafé. Íslandsbanki er stærsti kröfuhafi þrotabúsins. Fjöldi hluthafa í Fiskey hf eru um 150 talsins, þeirra stærstir eru Hafrannsóknastofnun, Samherji, Brim.
Örlygur Hnefill Jónsson lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri þrotabúsins og segir hann að eignir þess séu umtalsverðar, mikil mannvirki bæði á Hjalteyri og Dalvík, þar sem félagið rak fiskeldisstöðvar auk þess sem búið eigi umtalsvert magn af fiski og seiðum. Við munum mjög fljótlega auglýsa þessar eignir til sölu og ég vona að viðbrögð verði góð, þarna er gott tækifæri til staðar," segir Örlygur Hnefill. Á vegum félagsins hefur verið unnið merkilegt rannsókna- og þróunarstarf, sem skapað hefur atvinnu og skilað mikilli þekkingu í eldi sjávarfiska.
Félagið var stofnað árið 1987 og hefur framleitt rúmlega 4,5 milljónir lúðuseiða frá upphafi. Aðeins lítill hluti þeirra hefur farið í framleiðslu hér á landi en þau hafa verið flutt til Kanada, Skotlands, Kína, Svíþjóðar, Færeyja og Noregs. Frá stofnun félagsins hafa hluthafar lagt félaginu til rúmlega 1,1 milljarð í hlutafé. Ef miðað er við vísitölu neysluverðs og lánskjaravísitölu er uppreiknað núvirði hlutafjár 2,2 milljarðar króna. Þar að auki hefur Fiskey fengið 275 milljónir króna. í styrki frá opinberum aðilum, sem uppreiknað að núvirði eru tæplega 580 milljónir króna. Uppreiknaðar tekjur eru hátt í 3 milljarðar króna á síðastliðnum 14 árum en fyrstu sölutekjur félagsins voru á árinu 1998.