Finkan framleiðir prjónafatnað fyrir börn sem verða skítug
Guðrun Erla Guðmundsdóttir fatahönnuður hefur rekið saumaverkstæðið Finkuna á Húsavík síðan í desember 2014.
Guðrún er ánægð með viðtökurnar sem hún hefur fengið þó vissulega sé þetta búin að vera hálfgerð rússínbanaferð. Hún hefur mest verið að gera við og breyta fatnaði en alltaf eitthvað um að hún saumi frá grunni „Það hafa verið stöðug verkefni frá því ég opnaði,“ segir Guðrún í samtali við dagskrána.is.
Guðrún Erla fékk á dögunum styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, en sjóðurinn er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019.
Styrkurinn sem Guðrún hlaut fyrir hönd Finkunnar hljóðar upp á 460.000 krónur. Verkefnið sem styrkurinn er veittur út á, gengur út á hönnun og framleiðslu á prjónuðum ullarfötum fyrir börn.
„Þetta er hugmynd sem ég fékk þegar ég var að vinna hjá Glófa við framleiðslu á prjónafatnaði. Þá tók ég eftir því að það er ekki verið að gera mikið af prjónuðum barnafatnaði, bara einstaka flíkur,“ segir hún og bætir við: „Mér datt í hug að gera eitthvað skemmtilegt eins og léttari prjónaflíkur sem hægt er að setja í þvottavél. Ekki alltaf þessa íslensku ull sem er svolítið gróf á húðina fyrir suma, heldur líka fyrir börn sem verða skítug“.
Guðrún Erla reiknar með að framleiða prjónafatnað fyrir börn aldrinum 0-13 ára. „Ég er í hugmyndavinnunni núna og er að leita að grafískum hönnuði til að aðstoða mig,“ segir hún.
Svona styrkur hefur mikla þýðingu fyrir einyrkja eins og Guðrúnu Erlu, „ég get gefið mér tíma til að vinna í hugmyndinni og komið af stað prufugerð“.
Guðrún Erla hannar prjónavoðina sjálf, svo er hún að leita að aðilum til að prjóna fyrir sig stranga og stroff. „Svo framleiði ég vöruna hér á Húsavík. Ég er að vinna í því að kaupa frágangsvél og þá er ég komin með allar vélar sem ég þarf til að geta byrjað,“ segir hún.
Guðrún Erla vonast til þess að fyrsta fatalínan verði komin í verslanir fyrir jól. /epe.