Fimmtán marka sigur Akureyringa gegn Gróttu

Bjarni Fritzson fór á kostum í kvöld.
Bjarni Fritzson fór á kostum í kvöld.

Akureyringar unnu langþráðan sigur í N1-deildinni er liðið gjörsigraði Gróttu á heimavelli í kvöld, 39-24. Leikurinn var jafn fyrstu fjórar mínúturnar en eftir það gáfu norðanmenn í botn og litu aldrei til baka. Bjarni Fritzson átti stórleik í liði Akureyrar og skoraði 12 mörk úr 12 skotum, þar af 8 í fyrri hálfleik. Einnig átti Hörður Fannar Sigþórsson góða innkomu inn í lið Akureyrar eftir meiðsli og var valinn maður leiksins í liði heimamanna eftir leik. Þetta var fyrsti sigur Akureyringa síðan í fyrstu umferð og langþráð tvö stig í hús hjá þeim.  Akureyri fer upp í fimm stig en Grótta situr hins vegar sem fastast á botninum með eitt stig.

Bæði Heimir Örn Árnason og Hörður Fannar Sigþórsson komu inn í lið Akureyrar í kvöld og var varnarleikur gestanna öflugri fyrir vikið. Eftir jafnar fyrstu þrjár til fjórar mínútur eða svo settu Akureyringar í fluggír og náðu fimm marka forystu, 6-1. Gróttumenn héngu í norðanmönnum og munaði mest um Jóhann Gísla Jóhannsson sem fór fyrir sóknarleik Gróttumanna og skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik.

Akureyringar voru þó alltaf skrefinu á undan og ef ekki hefði komið fyrir góða markvörslu Lárusar Helga Ólafssonar í marki Gróttu hefðu norðanmenn farið langt með að klára leikinn í fyrri hálfleik. Bjarni Fritzson var funheitur í sóknarleik Akureyringa í fyrri hálfleik en hann skoraði átta mörk. Norðanmenn juku muninn í sjö mörk fyrir leikhlé, 19-13, og virtust hafa leikinn algjörlega í hendi sér.

Akureyri byrjaði seinni hálfleikinn með látum. Norðanmenn skoruðu fyrstu fjögur mörkin og náðu tíu marka forystu, 23-13, og þar með var grunnurinn að sigrinum lagður. Akureyri náði svo tólf marka forystu þegar um tólf mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, 29-17, og aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði. Munurinn var orðinn 13 mörk þegar tíu mínútur lifðu leiks, 33-20, og allur vindur farinn úr Gróttumönnum. Gestirnir gáfust hreinlega upp í lokin og Akureyringar gengu á lagið og röðuðu inn mörkunum og mestur varð munurinn 17 mörk, 38-21. Stefán Guðnason  átti flotta innkomu í mark Akureyrar og varði sjö skot á tíu mínútum í lokin.

Lokatölur, 39-24, og mikilvæg stig í hús hjá norðanmönnum en Grótta er í tómu tjóni á botninum með eitt stig.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 12 (3), Geir Guðmundsson 5, Heimir Örn Árnason 4,  Hörður Fannar Sigþórsson 4, Heiðar Þór Aðalsteinsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Oddur Gretarsson 3, Bergvin Gíslason 2, Guðlaugur Arnarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17 (2), Stefán Guðnason 7.

Mörk Gróttu: Jóhann Gísli Jóhannesson 5,  Hjálmar Þór Árnason 5, Benedikt Reynir Kristinsson 4, Ágúst Birgisson 3, Friðgeir Elí Jónasson 2 (1), Þórir Jökull Finnbogason 2 (2), Kristján Orri Jóhannsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 9, Magnús Guðbjörn Sigmundsson 2.

Nýjast