Fimm sækja um að halda Unglingalandsmót UMFÍ í sumar

Fimm aðilar sækja um að halda 13. Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands í sumar en umsóknarfrestur þess efnis rann út 10. janúar sl. Þeir sem sækja um eru Ungmennasamband Borgarfjarðar, UMSB, með móthald í Borgarnesi, Ungmennasamband Vestur-Skaftafellssýslu, USVS, mótstaður í Vík, Héraðssambandið Skarphéðinn, HSK, Þorlákshöfn sem mótstað, Ungmennafélag Akureyrar, UFA, og Ungmennasamband Eyjafjarðar, UMSE, í sameiningu með mótshald á Akureyri og Héraðssamband Þingeyinga, HSÞ, með móthald á Laugum.  

Á stjórnarfundi UMFÍ, sem haldinn verður 20. janúar í Reykjavík, verður ákveðið hvar mótið verður haldið í sumar.  Á þessum stöðum sem sækja um að halda unglingalandsmótið í sumar hafa ýmist Landsmót og Unglingalandsmót verið haldin áður. Fyrsta flokks aðstaða er fyrir á þessum stöðum.

Á stjórnarfundi UMFÍ sem haldinn var 5. janúar lá fram bréf frá HSH um að mótið færi fram í Grundarfirði og Stykkishólmi. Stjórn UMFÍ félst ekki á það og var ákveðið að auglýsa eftir nýjum mótshaldara.

Stjórn UMFÍ leitaði til sambandsaðila og þeim gefinn kostur á að taka að sér framkvæmd Unglingalandsmótsins í sumar.  Þetta kemur fram á vef UMFÍ.

Nýjast