Fimm línur sem krossa Glerána fram og til baka

Stefnt er að því að setja upp fimm línur sem krossa Gleránna fram og til baka, sú efsta yrði rétt ne…
Stefnt er að því að setja upp fimm línur sem krossa Gleránna fram og til baka, sú efsta yrði rétt neðan við göngubrú við Þingvallastræti og til norðurs í átt að Háskólanum á Akureyri. Mynd/aðsend.

Hugmyndir um uppsetningu á svonefndri zip línubraut á svæði við Glerárgil hafa verið kynntar í skipulagsráði og tók það jákvætt í erindið. Jón Heiðar Rúnarsson og Aníta Hafdís Björnsdóttir standa fyrir þessu verkefni.  Svæðið sem um ræða er skammt neðan við brú við Þingvallastræti og til norðurs í átt að Háskólanum á Akureyri. Sviðsstjóra skipulagssviðs var falið að vinna málið áfram.

Zip lína

„Þetta er enn á byrjunarreit hjá okkur, við erum á hönnunar og hugmyndastigi með þetta verkefni og munum halda þeirri vinnu áfram,“ segir Jón Heiðar. Hann nefnir að hér á landi séu tvær tegundir af zip línum í gangi. Annars vegar einnar línu braut þar sem farið er í einni bunu niður og hins vegar margra línu brautir eins og eru hjá Zipline Iceland í Vík í Mýrdal. „Við erum í nánu samstarfi við vini okkar í Vík og stefnum á að setja upp braut í Glerárgili sem er svipuð og þar er,“ segir Jón Heiðar. „Í okkar hugmyndum er stefnt á að setja upp fimm línur sem krossa Gleránna fram og til baka.“

Fræðandi göngutúrar á milli brauta

Leiðsögumenn munu tengja fólk við línuna og taka á móti því einnig við hinn endann á henni. Þá taka við stuttir göngutúrar á milli lína sem bjóða upp á möguleika  á léttri fræðslu fyrir ferðamenn um nærumhverfið. „Í okkar fyrstu hugmyndum er gert ráð fyrir að fyrsta lína byrji við göngubrúna sem liggur yfir Glerá við Þingvallastræti og sú síðasta endi um það bil 500 metrum neðar,“ segir hann. Lokahönnun og úttekt á brautinni verður unnin af erlendum sérfræðingum sem sérhæfa sig í brautum sem þessum.

Eykur möguleikana

Jón Heiðar segir að ziplínu braut af þessu tagi muni auka mjög möguleika til afþreyingar á Akureyri og yrði frábært viðbót við þá útivistarparadís sem Akureyri er. „Þetta gefur fjölskyldum sem og einstaklingum einstakt tækifæri á að kynnast Glerárgilinu á nýjan máta og fellur frábærlega að því sem er í gangi þar nú þegar en á svæðinu er frisbígolfvöllur, hjólabrettagarður, göngustígar og hjólaleiðir,“ segir hann.

/MÞÞ

Zip lína


Athugasemdir

Nýjast