Fimm lið taka þátt á Íslandsmótinu í íshokkí vetur

Mótafyrirkomulag í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu í íshokkí liggur nú fyrir. Fimm lið munu taka þátt í Íslandsmótinu að þessu sinni og er það fjölgun um eitt lið frá því í fyrra.  Skautafélag Akureyrar mun líkt og í fyrra tefla fram bæði Víkingum og Jötnum og þá mun Björninn einnig tefla fram tveimur liðum. SR verður áfram með eitt lið. Spilaðar verða fjórar umferðir fyrir utan úrslitakeppni og líkt og á síðasta tímabili verða einhverjar tilfærslur á milli liða leyfilegar, en endaleg útfærsla á því liggur ekki enn fyrir. 

Nokkrar mannabreytingar hafa verið á liðunum í deildinni í sumar. Daníel Kolar hefur snúið aftur í raðir SR, auk þess sem landsliðsvarnarmaðurinn Snorri Sigurbjörnsson er fluttur til landsins frá Noregi.  Einnig hefur þeim borist liðsstyrkur frá Ameríku en þaðan er kominn ungur og efnilegur leikmaður að nafni Robbie Sigurdsson, sem spilað hefur í unglingadeildum í Pittsburg. 

Björninn hefur einnig bætt í leikmannahópinn sinn en þangað er farinn Akureyringurinn Birkir Árnason, auk þess sem finnskur leikmaður úr 2.deildinni þar í landi hefur gengið til liðs við þá.  Þá berast einnig fregnir af því að þjálfarinn Sergei Zak ætli að spila og við þjálfarataumunum hefur tekið amerískur þjálfari.

Í leikmannahópi SA hefur hins vegar fækkað frá því í fyrra. Fyrirliðinn Jón Benedikt Gíslason er fluttur til Danmerkur, Ingólfur Elíasson til Svíþjóðar og Jóhann Leifsson er á leið vestur um haf til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á heimasíðu SA.

 

Nýjast