Fimm Íslandsmeistaratitlar til UFA á MÍ

Agnes Eva Þórarinsdóttir frá UFA vann tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun á Meistaramóti Ísl…
Agnes Eva Þórarinsdóttir frá UFA vann tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun á Meistaramóti Íslands. Mynd: Þórir Tryggvason

Ungmennafélag Akureyrar (UFA) vann fimm Íslandsmeistaratitla á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var í Laugardalshöllinni sl. helgi. Mótið var fjölmennt en alls voru keppendur 230 talsins frá átján félögum. Kolbeinn Höður Gunnarsson sigraði í 60 m grindahlaupi og í 200 m hlaupi í flokki 16-17 ára. Hann vann auk þess tvenn silfurverðlaun, í 60 og 400 m hlaupi, en þar keppti hann í flokki 20-22 ára. Í 400 m hlaupinu kom Kolbeinn í mark á tímanum 49,13 sek. og er það nýtt Íslandsmet í hans aldursflokki, en Kolbeinn er 16 ára. Fyrra metið átti Einar Daði Lárusson á 49,54 sek. Sunna Rós Guðbergsdóttir varð Íslandsmeistari í langstökki í flokki 15 ára og í öðru sæti í þrístökki og Heiðrún Dís Stefánsdóttir bar sigur úr býtum í 800 m hlaupi 18-19 ára.

Þá urðu strákarnir í boðhlaupssveit UFA í flokki 18-19 ára Íslandsmeistararar í 4x200 m hlaupi. Sveitina skipuðu þeir Eiríkur Árni Árnason, Stefán Þór Jósefsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Hermann K. Egilsson. Agnes Eva Þórarinsdóttir vann silfurverðlaun í langstökki og þrístökki og bronsverðlaun í 60 m hlaupi og 60 m grindahlaupi 18-19 ára. Stefán Þór Jósefsson hafnaði í öðru sæti í stangarstökki og í þriðja sæti í 60 m grindahlaupi í flokki 18-19 ára, Ásgerður Jana Ágústsdóttir varð í þriðja sæti í hástökki og langstökki 16-17 ára og Eiríkur Árni Árnason vann silfurverðlaun í 200 m hlaupi 18-19 ára.

Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE) átti einnig keppendur á mótinu sem gerðu góða hluti. Þrír keppendur unnu til silfurverðlauna, þau Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir fyrir þrístökk í flokki 16-17 ára, Berta Steingrímsdóttir fyrir stangarstökk í flokki 15 ára og Arlinda Fejzulahi fyrir kúluvarp í flokki 16-17 ára. Til bronsverðlauna unnu þær Steinunn Erla Davíðsdóttir fyrir 400 m hlaup 20-22 ára og Sveinborg Daníelsdóttir fyrir stangarstökk 16-17 ára. Þá vann boðhlaupssveit UMSE til bronsverðlauna í flokki 18-19 ára í 4x200 m hlaupi.

Nýjast