Fíkniefnamálum hefur fjölgað mikið á Akureyri

Fíkniefnamálum hefur fjölgað mikið á Akureyri að undanförnu, að sögn Gunnars Jóhannessonar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri. Það sem af er þessu ári hafa komið upp 91 fíkniefnamál en allt árið í fyrra voru þau 78 talsins.  

Gunnar segir það mikið áhyggjuefni að málunum fari fjölgandi frekar en hitt og svo virðist vera sem að fíkniefnamisnotkun sé að aukast í bænum. Einnig hafi önnur mál tengd fíkniefnum, svo sem fíkniefnaakstur aukist töluvert og allt þetta sé auðvitað mjög alvarlegt mál. Í september sl. komu upp 18 fíkniefnamál og það sem af er október hafa komið upp 13 mál. Til samanburðar þá komu upp sjö mál í september í fyrra.

Meira virðist vera um örvandi efni í bænum ef eitthvað má marka það magn sem lögregla hefur lagt hönd á. Árið 2007 var lagt hald á 1,7 kg af kannabisefnum og 125 gr af örvandi efnum. Það sem af er þessu ári hefur hins vegar verið lagt hald á 600 g af kannabisefnum og 140 gr af örvandi efnum. Gunnar bendir þó á að einnig mega að einhverju leiti þakka miklu átaki hjá lögreglu gegn fíknefnum að upp komist um fleiri mál en áður hefur verið, lögregla hafi sett mikinn kraft í málaflokkinn og það sé nú að skila sér. Hann segir að fíkniefnasíminn svokallaði, þar sem fólk getur hringt inn nafnlaust ef það hefur upplýsingar um fíkniefnamisferli, hafi gert mikið gagn á höfuðborgarsvæðinu en svo virðist vera sem að fólk á landsbyggðinni hafi ekki enn áttað sig á þessum möguleika. Margir haldi að þessi sími sé einungis fyrir höfuðborgarsvæðið en svo sé alls ekki, síminn taki til alls landsins.

Nýjast