Ferðaþjónusta efld með reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll

Unnið hefur verið að því í nokkur ár að skoða möguleika á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll og í október sl. var ákveðið að setja aukinn kraft í verkefnið með undirbúningi að stofnun Flugklasa sem er unninn á vegum Markaðsstofu Ferðamála á Norðurlandi.  

Flugklasinn er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, fyrirtækja í útflutningi og verslun, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila í samfélaginu og verður leiðandi í því átaki sem þarf til að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem nýjan áfangastað fyrir reglulegt millilandaflug. Arnheiður Jóhannsdóttir verkefnastjóri segir að í  yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana sem undirritaðir voru 5. maí sl. væri kveðið á um að stjórnvöld, sveitarfélög og aðilar í ferðaþjónustu sameinist í átaki með það að markmiði að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann. Nauðsynlegt væri að ferðaþjónustufyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar á Norðurlandi standi saman til að mynda sterkan aðila sem hefur forsendur til að koma inn í verkefni ríkissjóðs.

"Bakland Flugklasans, fulltrúar iðnaðar- og innanríkisráðuneyta, Isavia, Atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi öllu og Akureyrarbær hafa sýnt mikinn áhuga á þessu verkefni og ætlum við að vinna ötullega að framgangi þessa stærsta hagsmunamáls ferðaþjónustunnar á Norðurlandi á næstu mánuðum," segir Arnheiður. Bæjarráð Akureyrar hefur nú samþykkt 2 milljón króna framlag til undirbúnings verkefnisins. Þá fékk Markaðstofan 5 milljóna króna styrk til flugklasaverkefnisins í síðasta mánuði, þegar úthlutað var úr verkefninu; Atvinnusköpum í sjávarbyggðum. "Þessi stuðningur gerir okkur kleift að fara á fullum krafti í fjármögnun, viðræður og markaðssetningu til ferðaskrifstofa, flugfélaga og annarra ferðaþjónustuaðila," segir hún.

Tekjur af einu flugi um 38 milljónir króna

Arnheiður segir að það að koma á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll sé langtímaverkefni en fyrstu skrefin felist í því að opna nýjan áfangastað til Íslands með áherslu á vetrarferðamennsku. "Ferðamannatímabilið verður lengt með þessum hætti en rannsóknir hafa sýnt að meðal dvalartími ferðamanna á Norðurlandi fer úr 1,8 nóttum í 7,3 nætur ef lent er á Akureyri í stað Keflavíkur. Gefa má sér að tekjur inn í samfélagið af einu flugi um Akureyrarflugvöll með farþega á leið í vetrarfrí séu 38 milljónir króna en flugvöllurinn getur auðveldlega annað 5-7 meðalstórum farþegaþotum á viku," segir hún.

Lenging ferðamannatímans og nýr áfangastaður inn á Norðurland skapar tækifæri fyrir þróun og eflingu ýmissar þjónustu á öllu Norðurlandi og verður farið af stað með þróunarverkefni samstarfsaðila nú í haust til þess að að styrkja atvinnuuppbyggingu á svæðinu. "Það er skýrt í hugum þeirra sem hafa unnið að undirbúningi Flugklasans að það er engin aðgerð sem myndi skipta jafn miklu máli til þess að fjölga störfum og auka umsvif í samfélaginu öllu eins og sú að koma á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll."

 

 

Nýjast