Ferðakynning Ferðafélags Akureyrar í Ketilhúsinu

Ferðafélag Akureyrar býður upp á góða landkynningu og skemmtilegan félagsskap. Til að kynna ferðir ársins heldur ferðafélagið ferðakynningu í byrjun hvers starfsárs og er nú komið að kynningu fyrir starfsárið 2009. Verður hún í þetta sinn haldin í Ketilhúsinu á Akureyri fimmtudagskvöldið 5. febrúar kl. 20.00.  

Ferðir félagsins eru fjölbreyttar, lengri og styttri gönguferðir, jeppaferðir, sjóferðir, fjölskyldu- og skemmtiferðir, náttúruskoðunarferðir og fleira og ættu allir að geta fundið ferð við sitt hæfi. Á ferðakynningunni í Ketilhúsinu mun formaður Ferðafélags Akureyrar, Hilmar Antonsson setja kynninguna og formaður ferðanefndar FFA, Roar Kvam kynna ferðir starfsársins í tali og myndum. Hinn landsþekkti náttúrufræðingur Hjörleifur Guttormsson verður með erindi og myndakynningu er hann kallar: „Austurfjöll, megineldstöðvar og rannsóknir dr. Walkers". Fyrirtækin 66°Norður og Skíðaþjónustan sýna úrval af útivistarvörum. Í hléi verður boðið upp á kaffi og meðlæti. Aðgangseyrir að þessari áhugaverðu kynningu er kr. 1.000. Enginn sannur útivistarunnandi lætur þessa kynningu fram hjá sér fara.

Nýjast