Fjölmargir landsmenn hafa verið á faraldsfæti, þeir ferðast nú í auknum mæli innanlands og virðist sem Akureyri sé afar vinsæll áfangastaður. Þannig hafa aðsóknarmet verið sett að undanförnu bæði á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og í Sundlaug Akureyrar, en þar hefur gestum fjölgað um 20% í nýliðnum febrúar miðað við febrúarmánuð í fyrra. Alls hafa um 38 þúsund gestir komið í Hlíðarfjall það sem af er vetri en voru 17 þúsund í sama mánuði í fyrra, en um er að ræða 120% aukningu.
Sigurbjörn segir að eftir bankahrunið í október hafi fremur lítið verið að gera og greinilegt að menn héldu að sér höndum. Væntu menn þess á haustdögum að úr myndi rætast og höfuðborgarbúar flykkjast norður m.a. á skíði í stað þess að ferðast til útlanda. "Ég fór svo að halda að ekkert yrði úr þessu, að lægðin yrði dýpri en áætlað var því það var mjög rólegt framan af, en svo var eins og fólk tæki við sér undir mánaðamót janúar febrúar. Þá var farið að bóka hér mikið og síðustu vikur hafa verið mjög góðar, mikið af fólki á ferðinni og bara gaman," segir Sigurbjörn og bætir við að framhald verði á, mikið sé bókað nú í marsmánuði og raunar alveg fram á vor. "Það er því mjög gott hljóðið í okkur," segir hann og bætir við að sömu sögu sé að segja hjá þeim sem hann hafi heyrt í, veitingamönnum og verslunareigendum í bænum.