„Félagið stendur vel fjárhagslega, það veitir góða þjónustu, við höfum til dæmis opið hjá okkur 9 tíma á dag og erum einnig með bakvaktarsíma þannig að við erum alltaf til taks fyrir okkar félagsmenn. Þá höfum við greitt okkar félagsmönnum styrki af ýmsu tagi, námsstyrki og fleira umfram það sem gengur og gerist," segir Aðalsteinn og bætir við að einnig sé greinilegt að stefna félagsins í kjaramálum hafi hljómgrunn meðal fólks um land allt. Almennt sé mikið traust borið til félagsins, það staðfesti kannanir og eins að fólk sé ánægt með starfsemi þess.
„Það hefur um tíðina alltaf eitthvað verið um að fólk utan Þingeyjarsýslna, sem er okkar heimasvæði, hafi óskað eftir að ganga í Framsýn og að vissu marki er hægt að verða við slíkum óskum," segir Aðalsteinn. Nú fyrir skömmu fékk félagið formlegt erindi inn á sitt borð um að stofna sérstaka Eyjafjarðardeild innan Framsýnar. „Það er alveg skýrt að við munum virða lög sem fyrir eru í þessum efnum um svæðaskiptingu stéttarfélaga og eins og staðan er nú er ógerningur að verða við þessari ósk, en okkar lögfræðingar eru að fara yfir þetta og kanna möguleikana."
Framsýn tók til baka samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandi Íslands nú fyrir skömmu, en fulltrúar félagsins áttu í gær sinn fyrsta fund með Samtökum atvinnulífsins eftir að umboðið var tekið til baka. Aðalsteinn sagði að á þeim fundi hefði félagið lagt fram kröfur fyrir sína félagsmenn og að auki hefðu verið lagðar fram tillögur um möguleika á atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu. „Félagið vill sjá að gripið verði til ákveðinna aðgerða í atvinnumálum á svæðinu en það er ljóst að í fyrri kjarasamningaviðræðum hefur hallað verulega á áherslur í atvinnumálum á landsbyggðinni," segir Aðalsteinn.
Hann segir félagið munu halda áfram baráttu sinni fyrir 200 þúsund króna lágmarkslaunum og að samið verði til skamms tíma. „Við höldum ótrauð áfram þeirri baráttu en hún verður erfið, það er alveg ljóst," segir Aðalsteinn.