Rætt hefur verið um að rekstrarframlag Akureyrarbæjar til Leikfélags Akureyrar fari eingöngu í að borga niður skuldir í eitt ár. Það gæti haft í för með sér að rekstur leikhússins félli niður á sama tíma. Þetta er einn af fleiri möguleikum sem hefur verið ræddur, segir Jón Hjaltason, stjórnarmaður í Akureyrarstofu á vefsíðunni Smugunni, þar sem fjallað er um málefni LA. En mönnum líst miður vel á það, segir Jón. Farið sé yfir alla möguleika í stöðunni og það þurfi að ræða málið frá öllum hliðum.
Þegar svona mikið tap verður á rekstrinum eins og raunin varð hjá LA á síðasta ári er það auðvitað eðlilegt að allir möguleikar séu ræddir þegar endurreisn félagsins á sér stað. Þetta mál er í eðlilegum farvegi sem tekur auðvitað smá tíma en hlutirnir fara vonandi fljótlega að skýrast. Þessi tiltekni möguleiki sem þú nefnir yrði auðvitað engum leikhúsáhugamanni að skapi, segir Eiríkur Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri leikfélagsins, á smugan.is.
Skuldir leikfélagsins munu nema um 70 milljónum króna. Um sjö manns munu vera á launaskrá leikhússins allt árið, en fjöldi starfsmanna getur numið nokkrum tugum, eftir því hvaða verk eru á fjölunum. Framlög Akureyrarbæjar og menntamálaráðuneytisinis nema rúmlega 90 milljónum króna árlega. Auk þess hefur Akureyrarbær styrkt leikfélagið um 25 milljónir króna vegna húsaleigu.
Þegar tilkynnt var um framlög bæjarins til leikfélagsins í haust, var líka sagt frá sameiginlegri skoðun bæjarins og félagsins á því hvernig rekstri atvinnuleikhúss í bænum skyldi háttað. Þá var nefndur sá möguleiki að bærinn hætti þátttöku í rekstri leikhússins. Nefnd með fulltrúum Akueyrarstofu og bæjarins hefur átt í viðræðum við forsvarsmenn leikhússins. Þeim átti að vera lokið fyrsta desember, en málin eru enn til umræðu og mun niðurstöðu ekki vera að vænta fyrr en í næsta mánuði.
Í lok nóvember var birt úttekt á rekstri leikfélagsins. Þar kemur meðal annars fram að rekstrarvandræðin hefðu hafist með ráðningu leikhússtjóra og framkvæmdastjóra um mitt ár 2008. Staða framkvæmdastjórans hefði ekki verið auglýst, eins og áskilið væri í samþykktum leikfélagsins. Skort hefði á menntun og reynslu stjórnendanna. Þar segir ennfremur að viðbrögð stjórnendanna og stjórnar leikhússins við fjárhagsvandanum hafi verið síðbúin, og að óljóst hafi verið hver hefði átt að fylgjast með gangi mála fyrir hönd bæjarfélagsins, segir í frétt á Smugunni.