Félagar í Súlum ætla að klífa Mt. Shivling á Indlandi

Fimm vaskir félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri héldu af stað í leiðangur í síðustu viku og var ferðinni heitið til Indlands, þar sem hópurinn ætlar að klífa fjallið Mt. Shivling í indversku Himalayafjöllunum en það er 6.543 metrar á hæð.  

Leiðangurinn tekur einn mánuð en undirbúningur ferðarinnar hefur tekið um eitt ár. Í hópnum er ein stúlka, Berglind Aðalsteinsdóttir en aðrir leiðangursmenn eru tvíburabræðurnir Gunnar Sveinn Ragnars og Eiríkur Geir Ragnars, Kári Erlingsson og leiðangursstjórinn Arnar Þór Emilsson. Öll eru þau þrautreynt björgunarsveitarfólk og hafa starfað í björgunarsveit til fjölda ára, þrátt fyrir nokkuð ungan aldur. Íslenski hópurinn naut aðstoðar frá indverskum manni, Raja að nafni við undirbúninginn. Berglind og Arnar kynntust Raja fyrir tæpum tveimur árum þegar þau fóru með honum í klifurleiðangur til Sikkim í Norður Indlandi vorið 2007. Það var einmitt í þeirri ferð sem hugmyndin að Shivlingleiðangrinum kviknaði. Raja mun taka þátt í leiðangrinum og verður það frumraun hans á Mt. Shivling. Hann hefur séð um að ráða burðarmenn, kokk og klifursherpa auk þess sem hann aðstoðaði Íslendingana við alla pappírsvinnu þar ytra.

Umferðin á Indlandi  hættulegri

Ferðalangarnir voru sammála um það, þegar Vikudagur hittir þá á dögunum, að það væri ævintýraþrá sem ræki þá til að kljást við þetta mjög svo erfiða verkefni og það er alls ekki fyrir óvana. Enginn Íslendingur hefur klifið Shivling til þessa. Berglind sagði að vissulega væri alltaf einhver hætta á ferðum við svona verkefni en að hópurinn ætli að sér að fara að öllu með gát. "Umferðin á Indlandi er mjög skrautleg og ég kvíði því miklu frekar að fara í bíl um landið," sagði Berglind.

Það fylgir því mikill kostnaður að fara í svona leiðangur en hópurinn hefur notið stuðnings frá ýmsum aðilum, m.a. Póstinum, Símanum, Íslenska alpaklúbbnum, Cintamani og Súlum. "Við höfum séð sjálf um skipulagninguna og það hefur hjálpað okkur við að lækka kostnaðinn, auk þess sem það hefur verið ómetanlegt að fá hjálp frá Raja á Indlandi," sagði Arnar. Reyndar hefur ýmis kostnaður aukist nokkuð frá því fyrst var farið að skipuleggja ferðina, vegna gengismála.

Veturinn var vel nýttur í alls kyns fjallamennsku, eins og ísklifur, fjallabrölt og skíðaferðir, auk þess sem hópurinn þyrfti að ganga frá fjölmörgum atriðum fyrir brottför. Hópurinn flaug til London á miðvikudag og þaðan var flogið áfram til Dehli á Indlandi. Hópurinn er í dag, mánudag, staddur í Uttarkashi en stefnir á Gangotri og Bhujbas. Þaðan er gengið að Tapovan miðvikudaginn 8. október og grunnbúðir settar upp í 4.500 metra hæð yfir sjó. Næstu dagar fara í að ganga áfram í fyrstu búðir, sem eru í 5.100 metra hæð yfir sjó, áfram upp í aðrar og þriðju búðir, sem eru í 6.100 metra hæð yfir sjó, aðlagast þeim breytingum og hvíla lúin bein fyrir atlöguna á tindinn.

Gera þrjár atlögur að tindinum

Gangan er gríðarlega erfið, m.a. þarf að leggja línur á leiðinni, auk þess sem hópurinn þarf að undirbúa sig mjög vel. Verði einhver fyrir því að veikjast, er sá hinn sami úr leik og því er mikilvægt að aðlögunin gangi vel. Samkvæmt ferðatilhögun hópsins er ráðgert að gera fyrstu atlögu að tindinum þann 17. október nk., aðra atlögu daginn eftir og þá þriðju og síðustu sunnudaginn 19. október. Gangi það eftir verður gengið niður í fyrstu búðir daginn eftir og svo áfram í grunnbúðir og ráðgerir hópurinn að vera kominn aftur í grunnbúðirnar þann 21. október og til Dheli á ný 26. október. Leiðangrinum lýkur svo formlega þann 28. október, gangi allar áætlanir eftir. Hægt er að fylgjast með leiðangrinum á slóðinni: shivling2008.blogspot.com

Nýjast