Félag kartöflubænda gefur út bækling með uppskriftum

„Ég er alin upp við kartöflur, það má segja að lífið hafi snúist um kartöflur allt frá æskuárum," segir Sigríður Valdís Bergvinsdóttir frá Áshóli í Grýtubakkahreppi en þar hafa foreldrar hennar stundað kartöflurækt í áraraðir.  Í tilefni þess að Sameinuðu þjóðirnar hafa tileiknað árinu 2008 kartöflunni stendur Félag kartöflubænda fyrir útgáfu á veglegum bæklingi hvar verður að finna 10 uppskriftir þar sem kartöflur koma mjög við sögu. Bæklingurinn kemur út innan tíðar, um miðjan febrúar en Sigríður er potturinn og pannann í útgáfunni og hefur því í nógu að snúast þessa dagana. Sigríður er höfundur allra uppskriftanna, „þetta hefur smám saman verið að þróast, ég hef kartöflur með öllum mat, eða jafnvel sem aðalfæðu en þær er hægt að útbúa á margvíslega vegu, í bökur, gratin, súpur, þær má sjóða og steikja, nota í salöt og nú er ég farin að nota þær við gerbakstur.  Það kemur einstaklega vel út, þær eru mjölmiklar og bollurnar og bauðið verður einstaklega gott þegar kartöflurnar bætast við," segir hún. Meðal þess sem verður að finna í bæklingnum er uppskrift af fjallagrasabrauði sem síðustu sumur hefur verið á boðstólnum í kaffistofu Laufáss, en hún er upphaflega ættuð frá ömmu Sigríðar.  „Ég hef svo aðeins þróað hana og að sjálfsögðu bætt út í hana kartöflum!"  Hún nefnir einnig  að sífelld þróun sé í gangi og sem dæmi er Sigríður nú farin að nota kartöflur við kökubakstur.  Uppskriftir af því tagi má finna í bæklingnum. Auk uppskriftanna fá ýmsir fróðleiksmolar  að fylgja með og þá segja nokkrir valinkunnir Íslendingar „kartöflusögur" eða greina frá áliti sínu á þessari meinhollu afurð.  Í þeim hópi er einkaþjálfarinn Arnar Grant, leikarinn Guðjón Davíð Karlsson, sveitungi Sigríðar, Valgarður Egilsson læknir, og Solla á Grænum kosti svo einhverjir séu nefndir.

Kartöflur segir hún holla og góða vöru, ferskar afurðir án aukaefna og þær er hægt  að matreiða á fjölbreyttan hátt.  „Kartöflur eru mjög góður kostur, það er auðvelt að rækta þær, þær eru hollar og ódýrar.  Við vonum auðvitað að viðtökurnar verði góðar og landsmenn borði meira af kartöflum," segir Sigríður.  Vissulega segir hún Íslendinga duglega að borða kartöflur og oftast nær klárist framleiðslan en kartöflubændur vilji fyrir alla muni minna á sig og afurð sína með þessum hætti, en það er Félag kartöflubænda sem stendur að útgáfunni og tilefni sem fyrr segir Ár kartöflunnar. „Þar á bæ vildu menn vekja með einhverjum hætti athygli á kartöflunni," segir Sigríður. Bæklingurinn verður gefinn út í 50 þúsund eintökum fyrsta kastið og mun liggja frammi í kartöflurekkum verslana um land allt.  „Þetta hefur verið mjög skemmtilegt verkefni og allir sem ég hef leitað til vegna útgáfunnar hafa verið einstaklega jákvæðir og viljað leggja sitt af mörkum," segir Sigríður. 

Nýjast