Félag eldri borgara á Húsavík og nágrenni er í þann mund að festa kaup á húsnæði fyrir starfsemi félagsins að Garðarsbraut 44, neðri hæð og kjallara þar sem húsgagnaverslunin og verkstæðið Hlynur sf. og síðar Ómur sf. var til húsa. Húsnæðið er hugsað sem félagsaðstaða til komandi framtíðar.
Tekið verður við lyklunum 15. apríl n.k. Félagið er í dag með aðstöðu í Snælandi sem sveitarfélagið leigir undir starfsemi félagsins og gildir sá leigusamningur út árið. Gert er ráð fyrir að félagið verði áfram með aðstöðu í Snælandi á meðan verið er að standsetja nýja húsnæðið. „það er ýmislegt sem þarf að gera þarna,“ segir Eiður Árnason gjaldkeri félagsins í samtali við dagskrána.is.
Til að fjármagna kaupin hafur verið safnað frjálsum framlögum meðal félagsmanna með mjög góðum árangri. Einnig hefur fólk sem ekki hefur náð lágmarksaldri til að ganga í félagið sem er 60 ár sýnt framtakinu áhuga. „það hafa þó nokkrir haft samband og viljað styrkja okkur í þessu,“ segir Eiður.
Það fé sem hefur og á eftir að safnast verður lagt fram sem eigið fé í kaupunum. Sveitarfélagið Norðurþing hefur samþykkt að tryggja félaginu árlegan fjárstyrk til tryggingar á greiðslum á láni sem félagið tekur vegna kaupanna á húsnæðinu að Garðarsbraut 44.
Í tilkynningu frá stjórn félagsins segir:
„Við höfum ákveðið að gefa öllum kost á að taka þátt í kaupunum með frjálsu framlagi til að búa okkur og ykkur, sem á eftir komið, framtíðar félagsaðstöðu fyrir efri árin. Með samstilltu átaki gerum við þetta að veruleika.“
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á bankareikning félagsins. /EPE
Reikningnr: 0567-26-006212 og 0192-15-370390
Kennitala: 621298-5349