Eins og áður hefur komið fram á dagskrain.is hefur Félag eldri borgara á Húsavík og nágrenni fest kaup á nýju húsnæði undir félagsaðstöðu og aðra starfsemi félagsins að Garðarsbraut 44, fyrstu hæð og kjallara.
Í tilefni af því verður húsnæðið til sýnis „fyrir áhugasama og „forvitna“ félaga föstudaginn 13. maí frá kl: 13:00 - 14:30,“ eins og segir í fréttabréfi frá formanni félagsins Önnu Sigrúnu Mikaelsdóttur. En nú standa yfir framkvæmdir í húsinu. Jafnframt verður boðið upp á vöfflukaffi í Snælandi frá kl 14:00 – 16:00 sama dag, en félagsaðstaða eldri borgara hefur verið starfrækt í Snælandi undanfarið, þar er opið alla virka daga frá kl 13:00 – 16:00 og nýta margir sér þessa aðstöðu til að njóta félagsskapar og samveru við aðra félaga, þar er ætíð brakandi ferskt kaffi á könnunni og með því.
Anna Sigrún vill koma á framfæri þakklæti til allar þeirra sem komu að framkvæmdum í tengslum við endurbætur á Snælandi þegar félagið flutti þar inn.
Kaupverð nýja húsnæðisins er 32 milljónir króna, til að fjármagna kaupin tók félagið 27 milljón kr. bankalán og brúaði bilið, með frjálsum framlögum félagsmanna og velunnara félagsins. Söfnunin hefur gengið vel, alls hafa safnast 4,5 milljónir
„Öll fjárframlög eru vel þegin í þetta krefjandi verkefni og því hefur verið ákveðið að leita eftir styrkjum, fjárframlögum, frá hinum
ýmsu fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum, hér um slóðir, til þess að
létta undir með okkur , á fyrstu metrunum,“ segir í fréttabréfinu.
Forsendur þess að félagið fót út í þessa fjárfestingu er vilyrði sveitarfélagsins Norðurþings um fjárhagslegan stuðning á næsta fjárhagsári og á næstu árum. Félaginu barst einnig veglegur styrkur á dögunum frá frá Félagi eldri borgara á Raufarhöfn og áður hafði félaginu borist loforð um rausnarlegt framlag frá Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf, til verkefnisins. /epe
Þeir sem vilja styrkja verkefnið geta lagt inn á eftirfarandi reikning í Íslandsbanka: 0567-26-6212
Kennitala félagsins er: 621298-5349