Í kvöld kl.19:00 mætast Akureyri og HK í Höllinni á Akureyri í gríðarlega mikilvægum leik í baráttu beggja liða fyrir sæti í fjögurra liða úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta karla. Leikurinn er mjög merkilegur fyrir þær sakir að aðstoðarþjálfarar liðanna eru feðgarnir Árni Stefánsson hjá HK og Stefán Rúnar Árnason sonur hans hjá Akureyri. Vikudagur sló á þráðinn til þeirra feðga og spurði þá út í leikinn í kvöld og einvígi þeirra.
Akureyri situr í 6. sæti deildarinnar með 15 stig, HK er með 17 stig og í fjórða og síðasta sætinu sem gefur rétt í úrslitakeppnina er FH með 18 stig.
„Leikurinn leggst mjög vel í mig, það verður rosalega gaman að koma norður og vonandi spila framan fulla Höllina af fólki og mæta þar góðu liði Akureyringa. Vonandi verður mikil stemmning, það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með því úr fjarðlægð hvað það er búið að gera flotta hluti í kringum handboltann á Akureyri og vonandi fær maður að upplifa það í kvöld.” sagði Árni um leikinn.
Þeir feðgar eru sammála um að leikurinn verði væntanlega jafn og spennandi allt til loka, Árni vildi ekkert segja um hvort liðið myndi sigra en Stefán kvaðst þess full viss um að hans menn myndu taka öll stigin.
Verður sérstakt að mætast
Báðir eru þeir fullir tilhlökkunar að mæta hvor öðrum og viðurkenna að það verði mjög sérstakt. „ Þetta verður heldur betur gaman og sérstakt. Ég er mjög ánægður með hvað hann hefur staðið sig vel í þessu hlutverki í vetur og hef fylgst vel með honum, sagði Árni um soninn. Stefán var á sama máli. „Þetta verður sérstakt og skemmtileg, hann hefur kennt mér mikið og ég hef alltaf leitað til hans þegar ég þarf ráð varðandi þjálfun. Hann hefur kennt mér flest af því sem ég kann þó svo að auðvitað hafi ég auðvitað bætt við vitnesku mína annarsstaðar frá, svo hann hefur nú ekki öll tromp á hendi,” sagði Stefán léttur í lund
Óhætt er að segja að þeir feðgar geti brýnt rausn sína ef þörf er á en hvor þeirra er háværari? „Ég held að ég sé nú klikkaðari,” segir Árni og hlær. „Ég hef nú í gegnum tíðina reynt að láta hann læra af mínum mistökum og segja honum til í þessum efnum.” Stefán hins vegar var ekki alveg sammála og er þarna sennilega eina atriðið sem þá feðga greinir á um. „Það verður bara að koma í ljós hvor er háværari,” sagði Stefán kíminn og bætti svo við: „Ég held að dómararnir eigi eftir að lenda í vandræðum, þeir munu aldrei vita hvor okkar var að kalla inn á völlinn því við erum með svo líkar raddir.”
Að lokum aðspurðir hvort þeir stefni að því að þjálfa saman í framtíðinni svöruðu þeir því báðir til að þeir vonuðust til að það myndi gerast, því þeir séu um flest sammála þegar handbolti er annarsvegar. Sannarlega verður áhugavert að fylgjast með þeim feðgum í kvöld.