Fasteignaverð á Akureyri stendur i stað

Tryggvi Þ. Gunnarsson fasteignasali hjá Eignaver
Tryggvi Þ. Gunnarsson fasteignasali hjá Eignaver

Fasteignaverð í Reykjavik er að lækka og það eru tíðindi, vefnum lék forvitni á að vita  hvort svipað væri uppi á tenginum á Akureyri. 

Tryggvi Þ. Gunnarsson fasteignasali hjá Eignaver varð fyrir svörum.

 Fasteignaverð í REK að lækka sérðu sömu hluti hér?

Fasteignaverð er ekki byrjað að lækka hér á Akureyri, en klárlega eru merki um að verðið er farið að standa í stað. Undanfarin ár hafa leitt í ljós að markaðurinn hér á Akureyri er svona 6 mánuðum á eftir markaðnum á höfuðborgarsvæðinu og almenn lækkun á húsnæði ætti að koma í ljós eftir þann tíma, EF lækkun verður. Hingað til höfum við aldrei séð lækkun á húsnæðisverði, verðið stendur frekar í stað.

 Er nægt framboð af húsnæði til sölu?

Markaðurinn hefur verið mjög líflegur undanfarið en eftir aðgerðir Seðlabankans hefur hægst á, og þar af leiðandi er eignum á söluskrá að fjölga, úrvalið verður meira. En það má segja að það sé að komast á einhverskonar jafnvægi á framboð og eftirspurn.

 Hvaða stærð af íbúðum selst hraðast (vinsælast)?

Raðhús á einni hæð hafa lengi verið vinsæl, en þau henta breiðum hópi kaupenda. Við finnum mikið fyrir því að fyrstu kaupendur vanti inn á markaðinn, en þeir eru helst að kaupa 2-4 herbergja íbúðir, þegar seljendur eru komnir á þann stað að þurfa að stækka við sig. Það er svolítið eins og fyrstu kaupendur hafi gufað upp, og margar keðjur falla á því að litlu íbúðirnar seljast ekki.

 Er erfitt fyrir ungt fólk að fjármagna fyrstu kaup?

Ég vil aftur nefna að aðgerðir Seðlabankans gera fyrstu kaupendum mjög erfitt fyrir. Eins og ég sagði áðan, þá vantar mikið kaupendur að minnstu íbúðunum í fjölbýli til að keðjur um stærri íbúðir og einbýlishús gangi upp.

 Er verðmunur á sambærilegum íbúðum milli hverfa?

Já, það er einhver verðmunur milli hverfa. En það skrifast nú að hluta til líka á það að hverfin eru misgömul. Íbúð í Hagahverfi sem er tveggja ára, er að sjálfsögðu eitthvað dýrari en sambærileg 30 ára íbúð í Giljahverfi eða enn eldri í Lunda- eða Hlíðahverfinu.

Mögulega hafa nýbyggingar verið að hækka hlutfallslega meira en notaðar íbúðir í hverfum þar sem ekki er verið að byggja.

 


Athugasemdir

Nýjast