„Við höfum greint batamerki á fasteignamarkaði, eftirspurn hefur aukist og sölur eru fleiri, bæði beinar og í skiptum. Þessi breyting gefur vísbendingar um að það frost sem einkennt hefur markaðinn undanfarin misseri sé nú á enda,“ segir Björn Guðmundsson hjá Fasteignasölunni Byggð á Akureyri.
Sigurður Sveinn Sigurðsson hjá Hvammi tekur í sama streng og segir markaðinn líflegri en af sé látið í fjölmiðlum. „Það er töluvert að gera og margir eru í fasteignahugleiðingum þó ekki leiði allt til kaupsamninga, en meiri vinna liggur nú á bakvið hvern samning en áður,“ segir Sigurður Sveinn.
Björn segir ástandið hafa verið slæmt allt frá haustinu 2008, það hafi einkennst af mikill óvissu hjá fólki varðar atvinnu og tekjur sem og af almennum áhyggjum af efnahagsmálum. „Það sem er jákvætt í stöðunni fyrir Akureyri er að margar fyrirspurnir koma af höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk vill komast norður en ekki virðist vera jafnmikill áhugi hjá Norðlendingum að fara suður. Flestir sitja samt fastir með sínar eignir á höfuðborgarsvæðinu og geta þar af leiðandi ekki keypt hér þó áhugi sé til staðar,“ segir Björn.
Hann segir að eftirspurn eftir leiguhúsnæði hafi stóraukist á undanförnum mánuðum sem sé viðsnúningur frá því sem áður var. „Þannig að ég tel að einhver fjölgun sé á svæðinu sem er afskaplega mikilvægur þáttur í því að framtíðarhorfur markaðarins séu jákvæðar.“ Björn segir að einhver verðlækkun hafi átt sér stað á markaði, en tíðni makaskipta haldi aftur af verðlækkunum. „Lykillinn að því að fasteignamarkaðurinn taki hraustlega við sér er sá að lánsheimildir Íbúðalánasjóðs verði auknar og á ég þá bæði við að hámarkslán sjóðsins og veðsetningarhlutföll, að minnsta kosti við fyrstu kaup verði hækkuð. Það má ekki gleyma því að fasteignamarkaðurinn er lífæð fyrir margar starfsstéttir s.s. iðnfyrirtækja, verslunar- og þjónustustörf. Það er því mikilvægt að fasteignamarkaðurinn fari í gang sem allra fyrst,“ segir Björn.
Sigurður Sveinn segir að makaskipti og kaup á mikið veðsettum eignum séu algengari nú en í meðalári. Fasteignaverð hafi lækkað, sérstaklega á eignum sem þarfnast viðhalds á meðan nýjar eignir og uppgerðar halda sér betur í verði. „Þessi staða gefur jafnframt tækifæri til hagstæðra kaupa og svo virðist sem fólk sé mjög meðvitað um það,“ segir hann. Hvað haustið og veturinn beri í skauti sér „er ekki gott að segja en almennt gerum við ráð fyrir svipuðu ástandi.“