Farþegum um Akureyrarflugvöll hefur fækkað um 18,6% á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tíma á liðnu ári. Alls fóru 92.491 farþegi um völlinn á fyrri helmingi ársins en voru 113.663 í fyrra.
Farþegar nú í ár eru um það bil jafnmargir og voru á sama tímabili árið 2006, en á milli áranna 2006 og 2007 varð um 10% aukning og svo varð einnig um 10% fjölgun milli áranna 2007 og 2008. Mikill samdráttur hefur orðið hvað varðar farþega í millilandaflugi, en þar munar mest um að í ár var ekki boðið upp á tengiflug frá Akureyri til Keflavíkur í tengslum við millilandaflug og þá hóf Iceland Express áætlunarflug sitt milli Akureyrar og Kaupmannahafar hálfum mánuði síðar en í fyrrasumar.
Hvað varðar flug til áfangastaða á Norðurlandi, heldur Grímsey sínu nokkurn veginn, um 5% fækkun hefur orðið milli ára, en farþegar þangað voru 1550 talsins á fyrstu 6 mánuðum ársins Um 3% aukning er á farþegum til Vopnafjarðar en 8% fækkun farþega til Þórshafnar.