Farþegum SVA heldur áfram að fjölga
Farþegum hjá Strætisvögnum Akureyrar heldur áfram að fjölga og nú er svo komið að vandræðaástand hefur skapast á ákveðnum tímum á morgnanna, að sögn Stefáns Baldurssonar forstöðumanni SVA. Frítt er í strætó á Akureyri. Álagið er mest snemma á morgnana og á þeim tíma eru 70-90 manns í vögnunum í einu, sem er ansi mikið.
Við þurfum því að fara flýta morgunferðunum, þar sem við komum ekki fólki alltaf á réttum tíma í vinnuna. Við erum með einn aukabíl á morgnana, það dugar varla til og þurfum því að flýta ferðunum um nokkrar mínútur fram til kl. 10:00 til að koma farþegum á áfangastað á réttum tíma, segir Stefán. Hann segir að til standi að setja nýjar upplýsingar við biðstöðvarnar, sem eigi að gera fólki auðveldara með að lesa út úr öllum tímatöflum. Einnig er ný leiðabók væntanleg og þá verða örlitlar breytingar á leiðum til þess að geta þjónað fólki betur.
Stefán segir að leikskólar og grunnskólar hafi undanfarið látið vita fyrirfram ef þeir ætla með hópa af börnum í strætó. Ef um er að ræða t.d. tvær bekkjardeildir eða fleiri þá komast ekki allir fyrir í vögnunum á sumum tímum dags. Þá hefur það gerst að við höfum þurft að skilja farþega eftir og það er ómögulegt. Við erum að vinna í því að leysa þessi mál og gera það á sem hagkvæmast hátt. Þá þarf líka að kynna fyrir fólki þær breytingar sem gerðar eru, segir Stefán.
Ekið er frá kl. 6.25 til 23.03 alla virka daga en akstur um helgar er frá kl. 12:49 til 18:36. Allir vagnar hjá strætó og ferliþjónustu nota lífdísil sem eldsneyti. Lífdísillinn er framleiddur hjá fyrirtækinu Orkey á Akureyri, m.a. úr mör og úrgangssteikningarolíu frá veitingahúsum.