Farþegafjöldinn um Akureyrarflugvöll sá mesti í fjögur ár

Sífellt fleiri farþegar fara um Akureyrarflugvöll. Mynd/Hörður Geirsson.
Sífellt fleiri farþegar fara um Akureyrarflugvöll. Mynd/Hörður Geirsson.

Á árinu 2016 fóru rúmlega 183 þúsund farþegar um Akureyrarflugvöll sem er fjölgun um 13 þúsund farþega á milli ára. Þetta er jafnframt mesti farþegafjöldinn um Akureyrarflugvöll í fjögur ár, eða síðan árið 2012 er ríflega 199 þúsund manns fóru um flugvöllinn. Greint er frá þessu á vefnum turisti.is.

Nærri 750 þúsund farþegar nýttu sér innanlandsflug um íslenska áætlunarflugvelli í fyrra og hefur þeim fjölgað stöðugt undanfarin ár. Sem fyrr fara langflestir farþeganna um Reykjavíkurflugvöll eða liðlega helmingur samkvæmt tölum á heimasíðu Isavia, rekstraraðila flugvallanna. Ef litið er til þróunarinnar frá aldarmótum kemur í ljós að árið í fyrra var það tíunda besta í innanlandsfluginu út frá fjölda farþega. Í síðustu viku hóf Flugfélag Íslands reglulegt flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar og þá opnast möguleiki á því fyrir erlenda ferðamenn að fljúga beint norður í land við komuna til landsins. Með þessari nýju flugleið styttist einnig ferðatíminn fyrir Norðlendinga út í heim því þeir þurfa ekki lengur að keyra 430 km að Keflavíkurflugvelli eða fljúga fyrst til Reykjavíkurflugvallar til að komast í millilandaflug.

„Þannig getur farþegi sem flýgur með morgunfluginu frá Akureyri verið kominn til Glasgow rúmum fimm tímum síðar og þingmaður sem búsettur er á Akureyri nær hádegisfundi í Brussel jafnvel þó hann sofi heima hjá sér en ekki á hóteli fyrir sunnan,“ segir á vefnum turisti.is. 

Nýjast