Áhersla er lögð á að horfa til framtíðar, einkum af sjónarhóli landsbyggðar, þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, mannauð og tryggt matvælaöryggi, ásamt mun skilvirkara og beinna lýðræði, meiri samheldni og betra siðferði, en verið hefur. Fundarefni og önnur skipulagning fundanna verður unnin í samvinnu við heimamenn á hverjum stað. Þátttakendur eru hvattir til að spara hvers konar upphrópanir, heldur beina máli sínu að leit að sameiginlegum lausnum á því ástandi, sem upp er komið í þjóðlífinu og veita með því nýrri ríkisstjórn aðstoð og aðhald. Fyrsti fundurinn verður haldinn í Brekkuskóla á Akureyri, laugardaginn 7. febrúar 2009 - kl 12:30- 15:00. Ragnar Stefánsson, sem lengi hefur verið formaður LBL, setur fundinn og ýtir fundaherferðinni úr vör. Framsöguerindin, fimm að tölu, eru þessi:
Framtíð lýðræðis , Páll Skúlason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.
Ný tækifæri í sjávarútvegi, Hjörleifur Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Framtíð landbúnaðar, Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Ný sköpun - Ný framtíð, Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Ferðaþjónusta til farsældar, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri ferðamála við Háskólann á Hólum.
Að framsöguerindum loknum situr framsögufólk og fleiri tilkallaðir, fyrir svörum í pallborði. Landsbyggðinni lifi má í mjög stuttu máli lýsa sem byggðarvænni grasrótarhreyfingu, sem gengur þvert á alla flokksþólitík. - Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu LBL, http://www.landlif.is/.