Verðlaunagripurinn fyrir Umhverfisverðlaunin er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst. Svo skemmtilega vill til að þeir Aðalsteinn Svanur og Þórhallur hjá Effekt eru gamlir samstarfsfélagar á auglýsingastofunni Stíl á Akureyri. Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá 1995 því fyrirtæki sem þykir hafa staðið sig best í umhverfismálum innan ferðaþjónustunnar og hreppa farfuglaheimilin í Reykjavík; í Laugardal og á Vesturgötu 17, verðlaunin að þessu sinni.
Umhverfisvottaðir gististaðir
Fram kemur m.a. í rökum dómnefndar að farfuglaheimilin í Reykjavík séu einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu og líklega á landinu öllu ásamt Hótel Hellnum. Það vó einnig þungt við ákvörðun dómnefndarinnar að bæði farfuglaheimilin eru með Svaninn, opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Slík vottun gerir strangar kröfur til þeirra sem hana hljóta og eru farfuglaheimilin í Reykjavík einu gististaðirnir hér á landi sem fengið hafa Svansvottunina.
Þá ganga farfuglaheimilin um margt lengra en kröfur eru gerðar um, s.s. í upplýsingagjöf til gesta, og áhugavert þykir að sjá hversu hlutlæg markmiðssetning og eftirfylgni heimilanna er. Þannig sé tryggt að boðað verklag verði ekki orðin tóm. Einnig er til eftirbreytni að mati dómnefndar hversu vel farfuglaheimilin vekja athygli á menningarviðburðum sem eru í gangi á hverjum tíma og taki jafnframt kröftuglega þátt í félagslífinu í nærumhverfi sínu.
Við athöfnina í dag kom fram hjá ferðamálaráðherra að farfuglaheimilin í Reykjavík væru vel að verðlaununum komin. Glöggt mætti sjá að umhverfisvitund væri ekki ný tilkomin hjá þeim því Farfuglar hefðu hlotið umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2003.
Gæða- og umhverfiskerfið VAKI
Við athöfnina í dag kynnti ráðherra ferðmála einnig nafn á nýju gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar en efnt var til samkeppni um nafnið - sem skyldi vera á íslensku og lýsandi fyrir verkefnið en jafnframt þjált í framburði á alþjóðavettvangi. Um 130 tillögur bárust og var það niðurstaða dómnefndar að nýtt gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu skuli heita VAKI enda sé kerfinu ætlað að vaka yfir frammistöðu þeirra sem starfa í greininni og vekja og viðhalda áhuga á gæðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þar sem fleiri en ein tillaga barst með nafninu VAKI var dregið um vinningshafa. Upp kom nafn Gunnars Svavarssonar og hlýtur hann í verðlaun 100 þúsund krónur.
VAKI hefur jafnframt eignast eigið kennimerki sem er vindrella, hönnuð af Þórhalli Kristjánssyni hjá auglýsingastofunni Effekt á Akureyri. Auk almennrar skírskotunar og jákvæðra hughrifa má að mati dómnefndar sjá í merkinu tilvísun til umhverfisins, í þjóðarblóm Íslendinga holtasóleyna, bæði hvað varðar lögun og lit. Þá myndi útlínur merkisins stjörnu og vísi það í viðurkenninguna sem felst í gæðakerfinu. Alls bárust 14 tillögur að merki í lokaðri samkeppni.
VAKA er ætlað að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi og stuðla að samfélagslegri ábyrgð ferðaþjónustuaðila. Kerfið skiptist annars vegar í stjörnuflokkun fyrir gististaði og hins vegar aðra þjónustu sem tengist ferðamönnum og verður það tekið í notkun á næstu misserum. Fyrirmyndin að kerfinu er sótt til Nýja Sjálands en þróun og aðlögun þess hefur staðið yfir um nokkurt skeið hjá Ferðmálastofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtökum Íslands.